Marx-Lenínismi: Kommúnísk stjórnmálastefna

Marx-lenínismi er kommúnísk hugmyndafræði sem var útbreiddasta stefna kommúnistahreyfinga á 20.

öldinni. Marx-lenínismi var heiti á opinberri stjórnarstefnu Sovétríkjanna, leppríkja þeirra í Austurblokkinni og ýmissa sósíalískra stjórna í þriðja heiminum á tíma kalda stríðsins. Alþjóðasamband kommúnista aðhylltist jafnframt marx-lenínisma eftir að bolsévikar komust þar til áhrifa. Marx-lenínismi er enn hugmyndafræði ýmissa kommúnistaflokka og opinber stjórnarstefna ríkisstjórna Kína, Laos og Víetnam. Marx-lenínistar aðhyllast jafnan alþjóðlega verkalýðshyggju og sósíalískt lýðræði en eru almennt mótfallnir stjórnleysi, fasisma, heimsvaldastefnu og frjálslyndu lýðræði. Hugmyndafræði marx-lenínisma gerir ráð fyrir því að til þess að ryðja kapítalisma úr vegi verði að gera kommúníska byltingu í tveimur þrepum. Kommúnísk framvarðarsveit sem skipulögð er með tilteknu stigveldi með lýðræðislegri miðstýringu á að taka völdin „í þágu verkalýðsins“ og stofna til sósíalísks ríkis undir stjórn kommúnistaflokks, sem á að ráða í umboði einræðis verkalýðsins. Ríkið á að stýra efnahaginum og framleiðslunni, bæla niður andstöðu borgarastéttarinnar, efla sameignarstefnu og undirbúa væntanlegt kommúnistasamfélag sem á að vera bæði stéttalaust og ríkislaust. Marx-lenínísk ríki eru yfirleitt aðeins kölluð kommúnistaríki í fræðaheimi Vesturlanda.

Marx-Lenínismi: Kommúnísk stjórnmálastefna
Sovéskt áróðursplakat frá árinu 1920. Á því stendur: „Til þess að eiga meira verður að framleiða meira. Til þess að framleiða meira verður að kunna meira.“
Marx-Lenínismi: Kommúnísk stjórnmálastefna
Myndir af Marx, Engels, Lenín og Stalín í Austur-Þýskalandi árið 1953.

Jósef Stalín þróaði hugmyndina um marx-lenínisma á þriðja áratuginum upp úr túlkun sinni og samblöndun á marxískri rétthugsun og lenínisma. Eftir dauða Vladímírs Lenín árið 1924 varð marx-lenínismi sérstök hreyfing innan Sovétríkjanna þegar Stalín og félagar hans náðu stjórn á Kommúnistaflokknum. Með nýju hugmyndafræðinni höfnuðu marx-lenínistar hugmyndum vestrænna marxista um heimsbyltingu sem skilyrði fyrir uppbyggingu sósíalisma og studdu þess í stað hugmyndina um sósíalisma í einu landi. Stuðningsmenn stefnunnar töldu umskiptin frá kapítalisma til sósíalisma hafa markast af tilurð fyrstu fimm ára áætlunarinnar og upptöku sovésku stjórnarskrárinnar 1936.

Á síðhluta þriðja áratugarins lagði Stalín grunn að hugmyndafræðilegri rétthugsun innan Kommúnistaflokksins, Sovétríkjanna og Alþjóðasambands kommúnista til þess að vísir væri að alþjóðlegu marx-lenínísku iðkunarferli. Á þriðja áratuginum varð sovésk útgáfa Stalíns og félaga af þráttarefnishyggju og sögulegri efnishyggju að opinberri sovéskri túlkun á marxisma og marxistar í öðrum ríkjum fóru að nota hana sem fyrirmynd. Á síðhluta fjórða áratugarins náði hugtakið marx-lenínismi útbreiðslu eftir að Stalín notaði það í opinberri kennslubók sinni, Sögu Kommúnistaflokks Sovétríkjanna (Bolsévika) (1938).

Alþjóðahyggja marx-lenínismans birtist í stuðningi hans við byltingar í öðrum löndum, fyrst í gegnum Alþjóðasamband kommúnista. Stofnun annarra kommúnistaríkja eftir seinni heimsstyrjöldina leiddi til þess að nýju kommúnistastjórnirnar fylgdu marx-lenínísku fordæmi Sovétríkjanna og tóku upp fimm ára áætlanir, hraða iðnvæðingu, pólitíska miðstýringu og bælingu á andófi. Í kalda stríðinu var marx-lenínismi áberandi drifkraftur í alþjóðasamskiptum mestalla 20. öldina. Eftir að Stalín lést og hafið var að þurrka út arfleifð hans í Sovétríkjunum var marx-lenínismi endurskoðaður mörgum sinnum og til urðu ýmis afbrigði eins og guevarismi, Ho Chi Minh-hugsun, hoxhaismi, maóismi, sósíalismi með kínverskum einkennum og títóismi. Þetta leiddi jafnframt til þess að hugmyndafræðilegar deilur hófust á milli margra marx-lenínískra ríkja, meðal annars deilna Títós og Stalíns, deilna Kína og Sovétríkjanna og deilna milli Kína og Albaníu.

Deilt hefur verið um hvernig beri að flokka marx-lenínísk ríki félagshagfræðilega. Ýmist hefur verið bent á þau sem dæmi um skrifræðislega sameignarstefnu, ríkiskapítalisma, ríkissósíalisma eða alveg sérstakan framleiðsluhátt. Austurblokkinni, þar á meðal marx-lenínískum ríkjum í Austur-Evrópu og þriðja heiminum, hefur verið lýst sem „skrifræðislegu valdboðskerfi“. Hins vegar hefur verið bent á félagshagfræðilega uppbyggingu Kína sem „þjóðernissinnaðan ríkiskapítalisma“.

Gagnrýni á marx-lenínisma hefur jafnan farið saman við almenna gagnrýni á kommúnistastjórnir og með henni hefur jafnan verið einblínt á gerðir og stefnur marx-lenínískra leiðtoga á borð við Stalín, Maó Zedong og Pol Pot. Marx-lenínísk ríki einkennast venjulega af mikilli miðstýringu ríkisins og kommúnistaflokksins, pólitískri undirokun, trúleysi sem opinberri trúarstefnu, sameignarstefnu og notkun nauðungarvinnu í vinnubúðum auk ókeypis almennrar menntunar og heilbrigðisþjónustu, lítils atvinnuleysis og lægra verðlags á tilteknum vörum. Sagnfræðingar á borð við Silvio Pons og Robert Service telja að undirokun og alræðishyggja þessara ríkja hafi komið til vegna marx-lenínískrar hugmyndafræði. Sagnfræðingar á borð við Michael Geyer og Sheilu Fitzpatrick benda á aðrar skýringar og telja að áhersla á efri lög samfélagsins og á hugtök á borð við alræðishyggju hafi skyggt á eiginlega virkni kerfisins. Uppgangur Sovétríkjanna sem fyrsta kommúníska ríkis heims leiddi til þess að kommúnismi varð almennt bendlaður við marx-lenínisma og sovéska stjórnarhætti en sumir fræðimenn, hagfræðingar og hugsuðir halda því fram að í reynd hafi marx-lenínísk stjórnkerfi verið tegund af ríkiskapítalisma eða áætlanalausu tilskipanahagkerfi.

Tengt efni

Tilvísanir

Tags:

Alþjóðasamband kommúnistaAusturblokkinBolsévikarByltingFasismiHeimsvaldastefnaKalda stríðiðKapítalismiKommúnismiKínaLaosSameignarstefnaSovétríkinStjórnleysiVíetnamÞriðji heimurinn

🔥 Trending searches on Wiki Íslenska:

Listi yfir lönd eftir mannfjöldaMálmurSpilavítiAtviksorðBoðhátturEintalaVafrakakaTata NanoEyjafjallajökullTónlistarmaðurAmerískur fótboltiStefán MániQÍslendingabókÍsöldHróarskeldaSetningafræðiListi yfir íslensk mannanöfnHöggmyndalistFjármálVenesúelaBandamenn (seinni heimsstyrjöldin)LandsbankinnVíetnamPablo EscobarBjór á ÍslandiJökullHús verslunarinnarSurtseyErróGjaldeyrirLjóðstafirKrummi svaf í klettagjáGrænlandBríet (söngkona)Jarðskjálftar á ÍslandiC++Búnaðarbálkur (Eggert Ólafsson)Mikligarður (aðgreining)Guðmundur FinnbogasonKuiperbeltiPaul McCartneyÍslenskaMarie AntoinetteÁgústusSúnníAndreas BrehmeSumardagurinn fyrstiKobe BryantDrekkingarhylurLandnámsöldÓðinnReykjavíkÞjóðleikhúsiðAustarAlþingiskosningarListi yfir NoregskonungaFerðaþjónustaMeltingarensímMaó ZedongFreyr3. júlíStýrivextirYEMacVíkingarLaosMegindlegar rannsóknirVerg landsframleiðslaKanaríeyjar11871900JLjónOtto von BismarckSnorra-Edda🡆 More