Vegnúmer

Vegnúmer eru sérstök númer sem auðkenna vegi.

Þau eru notuð til að flokka vegi niður eftir mikilvægi, til að hjálpa vegfarendum við að rata og til að aðgreina vegi í sundur, hvort sem það er vegna skipulags eða til þess að auðveldara sé að miða út tiltekinn veg í samanburði við annan.

Til eru vegnúmerakerfi í ýmsum myndum og er misjafnt á hvaða stigi þau eru. Þau geta verið alþjóðleg vegakerfi sem ná til margra landa, vegakerfi eins ríkis getur haft eitt algilt númerakerfi eða að eingöngu sé um að ræða vegi sem ríkið sjálft sér um. Í sambandsríkjum eru einnig oft yfirþjóðleg vegakerfi sem taka til mikilvægustu veganna og svo er hvert sambandsríki innan landsins með hvert sitt númerakerfið. Einnig er algengt að undirstjórnsýslustig, svo sem héruð og sýslur, hafi sitt eigið vegnúmerakerfi og jafnvel er til í dæminu að svo smáar stjórnsýslueiningar sem sveitarfélög hafi sín eigin númerakerfi. Allur gangur er þó á því hvort þessi númerakerfi séu gerð opinber í skrám eða á skiltum, sum eru aðeins stjórnsýslulegs og skipulagslegs eðlis og birtast ekki á vegaskiltum, landakortum eða opinberum upplýsingaveitum. Yfirleitt eru þó númerakerfi þjóðvega og alþjóðlegra vegakerfa gerð opinber á vegaskiltum og yfirleitt birtast þau einnig á landakortum.

Nánar um einstök vegnúmerakerfi

Í næstu köflum fyrir neðan er fjallað um nokkur markverð vegnúmerakerfi í heiminum. Fyrst er fjallað um Ísland og svo haldið út í heim þar sem fyrst verður komið að alþjóðlegum númerakerfum og síðan hver heimsálfa fyrir sig. Evrópu er skipt í tvo kafla og Norðurlöndin höfð sér.

Númerakerfi þjóðvega á Íslandi

Íslenska vegnúmerakerfið á rætur sínar að rekja til ársins 1972 þegar þörf var talin að koma upp slíku kerfi á Íslandi. Kerfið hefur í megindráttum haldist óbreytt síðan þá.

Kerfið byggist á því að aðalvegurinn um landið er númer 1 (Hringvegurinn) og síðan eru 8 númerasvæði sem liggja hringinn í kringum landið réttsælis frá Suðurlandi að Austurlandi. Fyrsti stafur númera á hverju svæði er alltaf sá sami og byrja þau á 2-9. Síðan er fjöldi tölustafanna í númerinu ákvarðaður af hversu mikilvægur vegurinn er. Hringvegurinn er eini vegurinn með einn tölustaf, tveir tölustafir tákna helstu aðalvegi og þrír tölustafir tákna aðra helstu vegi innan hvers svæðis. Að auki eru til númer með forskeytinu F sem tákna vegi um fjöll og hálendi sem ófærir eru ökutækjum sem ekki eru fjórhjóladrifin. Síðustu 25 árin hafa einnig bæst við fjögurra stafa númer sem auðkenna fremur stutta og þýðingarlitla vegi og þau númer eru sjaldnast gerð opinber og birtast að jafnaði ekki á vegvísum.

Helstu vegnúmerakerfi erlendis

Alþjóðleg vegnúmerakerfi

Evrópuvegir

Númerakerfi Evrópuvega myndar eitt samfellt vegakerfi um nær öll lönd Evrópu og nær að hluta inn í Asíu að auki. Númerin þekkjast gjarnan af því að þau hafa forskeytið E og eru auðkennd með hvítum stöfum í grænum ramma. Eins og tveggja stafa númer eru aðalvegir en aðrir vegir bera þriggja stafa númer. Númerin eru að jafnaði notuð samhliða þjóðvegakerfi hvers lands en stundum eru þau innbyggð í númerakerfi þjóðvega landanna (svo sem á Norðurlöndunum) og annars staðar koma þau sjaldan fyrir (t.d. Þýskalandi og Ítalíu) eða ekki neitt (t.d. í Bretlandi).

Asíuvegir

Asíuvegir eru númerakerfi aðalvega sem liggja um alla Asíu og er hugmyndin innblásin af kerfi Evrópuvega. Enn sem komið er eru þeir lítið merktir í löndum Asíu en sum lönd hafa þó tekið sig til og merkt ýmsa vegi. Á mörkum Evrópu og Asíu liggja margir Asíuvegir um sömu vegi og Evrópuvegir í sömu löndum þar eð kerfin skarast á nokkrum stöðum.

Afríkuvegir

Afríkuvegir eru kerfi aðalvega um Afríku sem ætlaðir eru til að styrkja samgöngur á landi innan álfunnar. Enn sem komið er standa þeir aðeins fyrir um 10 meginleiðir sem markmiðið er að tengja saman í eina heild og mynda eitt samfellt kerfi. Þróunin er komin vel á veg í sumum löndum en annars staðar eru framkvæmdir á algjöru frumstigi.

Norðurlöndin

Danmörk

Danska vegnúmerakerfið á rætur að rekja til ársins 1980 sem leysti af hólmi eldra kerfi aðalvega með forskeytinu A sem aðeins tók til allra mikilvægustu veganna. Núverandi kerfi byggir á því að mikilvægustu vegir landsins eru Evrópuvegir og bera sömu E-númer og þeir. Síðan koma helstu aðalvegir milli landshluta, kallaðir fyrsta flokks leiðir, og bera þeir tveggja stafa númer. Næsta stig þar fyrir neðan eru svokallaðar annars flokks leiðir sem bera þriggja stafa númer.

Noregur

Norska vegnúmerakerfið er orðið nokkuð gamalt en núverandi fyrirkomulag er frá 7. áratug 20. aldar. Helstu vegir vegakerfisins eru Evrópuvegir sem bera sömu E-númer og þeir. Aðrir þjóðvegir eru kallaðir ríkisvegir í Noregi og eru helstu stofnvegir landsins. Númerakerfið inniheldur eins til þriggja stafa númer og töldust allir númeraðir vegir til ríkisvega til ársins 2010 þegar þeir voru flestir færðir niður á fylkisstig en fyrrum ríkisvegir héldu þó sínu númeri. Hvert fylki hefur að auki eigið númerakerfi sem ekki birtist á vegvísum.

Svíþjóð

Sænska vegnúmerakerfið á uppruna sinn að rekja til ársins 1962 þegar gömlu aðalvegirnir fengu ný númer. Helstu vegir landsins eru Evrópuvegir og bera þeir sömu E-númer og þeir. Aðrir þjóðvegir sem eru kallaðir ríkisvegir liggja þvert yfir allt landið frá norðri til suðurs og bera eins til tveggja stafa númer. Næsta stig þar fyrir neðan er kallað lénsvegir og teljast helstu héraðsvegir til þess flokks og þeir bera þriggja stafa númer.

Finnland

Finnska vegnúmerakerfið byggist á nokkrum stigum eftir mikilvægi. Aðalvegir landsins eru kallaðir ríkisvegir og bera númer frá 1-30. Næsti flokkur kallast stofnvegir og bera þeir númer frá 40-99. Þriðji flokkurinn telst til héraðsvega og bera þeir þriggja stafa númer. Dæmi er um að fjögurra stafa númer birtist á skiltum en það er þó ekki mjög algengt, þeir eru kallaðir tengivegir.

Önnur Evrópulönd

Bretland

Breska vegakerfið hefur tvö númerakerfi. Númerakerfi almennra vega í Bretlandi er að uppruna frá árinu 1923. Númerakerfið byggist á svæðisbundnu skipulagi sem skiptist í númerasvæði eftir því á milli hvaða aðalvega vegurinn liggur. Vegirnir bera eins til fjögurra stafa númer með forskeytunum A og B og eru það A-vegir með eins stafs númer sem ráða mörkum númerasvæðanna en þeir liggja í geirum út frá London og Edinborg. A og B númer birtast á skiltum en að auki eru til C og jafnvel D númer sem ekki eru gerð opinber.

Hitt númerakerfið tekur til hraðbrauta. Þeir bera allir forskeytið M og fylgja í grófum dráttum sömu formerkjum þegar númerunum er raðað á númerasvæði. Algengust eru eins og tveggja stafa númer en þó eru til númer með þremur stöfum.

Þýskaland

Þýska vegakerfið hefur tvö númerakerfi sem ná yfir allt sambandslandið. Hið fyrra er númerakerfi hraðbrautanna (Autobahn). Númer með einum staf mynda net aðalhraðbrauta sem liggja ýmist frá norðri til suðurs (oddatölunúmer) eða frá vestri til austurs (sléttrar tölu númer). Önnur númer raðast í númerasvæði. Aðrar helstu hraðbrautir bera tveggja stafa númer og tengihraðbrautir bera þriggja stafa númer. Opinberlega er forskeyti númerana A en það birtist ekki á skiltum.

Hitt númerakefið sem nær yfir allt sambandslandið er númerakerfi sambandsþjóðvega. Allur gangur er á því hvernig þeim er raðað um landið en þeir liggja yfirleitt í hækkandi röð. Eins stafs númer fylgja þó sömu formerkjum og net aðalhraðbrauta og á kerfi sambandsþjóðvega rætur að rekja aftur til 3. áratugs 20. aldar. Opinberlega er forskeyti númerana B en það birtist ekki á skiltum.

Hvert sambandsríki hefur svo sitt eigið númerakerfi.

Frakkland

Franska vegakerfið hefur tvö númerakerfi sem ná yfir allt landið. Að auki er hvert hérað með sérstakt númerakerfi og teljast flestir vegir sem ekki eru aðalvegir til þeirra kerfa.

Að uppruna á franska þjóðvegakerfið rætur sínar að rekja til ársins 1811 þegar Napóleon innleiddi kerfi keisaravega. Það er talið eitt elsta vegnúmerakerfi sem enn er við lýði. Mikilvægustu vegirnir liggja í geirum út frá París. Margir veganna hafa þó verið færðir yfir til héraðanna. Franskir þjóðvegir bera forskeytið N og héraðsvegir bera forskeytið D.

Hraðbrautir í Frakklandi bera eins til tveggja stafa númer. Helstu hraðbrautirnar liggja út frá París en öðrum hraðbrautum er skipt niður í númerasvæði. Franskar hraðbrautir bera forskeytið A.

Spánn

Spænska vegakerfið hefur þrjú númerakerfi sem ná yfir allt landið. Að auki er fjöldinn allur af númerakerfum héraða og sýslna.

Þau kerfi sem ná yfir allt landið eru tvö aðskilin númerakerfi fyrir hraðbrautir og eitt fyrir almenna þjóðvegi. Kerfi almennra þjóðvega byggist á sex aðalvegum sem liggja í geirum út frá Madríd og skiptast aðrir þjóðvegir í númerasvæði á milli þessara sex vega. Þeir bera þriggja stafa númer og forskeytið N.

Hraðbrautir skiptast í tollhraðbrautir og venjulegar hraðbrautir. Hvor flokkurinn um sig hefur eins til tveggja stafa númer; tollhraðbrautir hafa forskeytið AP en aðrar hraðbrautir forskeytið A.

Norður-Ameríka

Bandaríkin

Bandaríska vegakerfið skiptist í mörg mismunandi stig eftir mikilvægi. Tvö númerakerfi eru notuð á alríkisstigi og verður gert grein fyrir þeim hér að neðan. Hvert fylki hefur að auki sitt eigið ríkisvegakerfi og sýslur innan fylkjanna hafa síðan enn önnur vegakerfi.

Veigamesta númerakerfið er hið svokallaða Interstate-kerfi. Það er kerfi alríkishraðbrauta í Bandaríkjunum sem var innleitt árið 1956. Fyrirmynd vegakerfisins var hið þýska Autobahnkerfi en fyrirmynd númerakerfisins er kerfi hinna svokölluðu US Highways. Númerakerfi Interstate-vega byggist jafnframt á því að oddatölunúmer liggja í hækkandi röð frá vestri til austurs og sléttrar tölu númer liggja í hækkandi röð frá suðri til norðurs. Númer sem enda á 0 og 5 eru mikilvægustu hraðbrautir landsins.

Annað umfangsmikið númerakerfi í Bandaríkjunum eru hinir svokölluðu US highways. Þetta eru hinir upprunalegu þjóðvegir í Bandaríkjunum og á númerakerfið rætur að rekja til ársins 1926. Þeir liggja í hækkandi röð frá austri til vesturs fyrir oddatölunúmer og frá norðri til suðurs fyrir sléttrar tölu númer. Aðalvegir enda á 0 og 1.

Tenglar

Upplýsingasíða um flest vegnúmerakerfi í heiminum

Tags:

Vegnúmer Nánar um einstök vegnúmerakerfiVegnúmer Númerakerfi þjóðvega á ÍslandiVegnúmer Helstu vegnúmerakerfi erlendisVegnúmer TenglarVegnúmer

🔥 Trending searches on Wiki Íslenska:

EldstöðLudwigsburgAlsírPunktur punktur komma strik (kvikmynd)Stefán MániÍsland í seinni heimsstyrjöldinniDúnaMóbergÞorskurKeilirÍslenska WikipediaBankahrunið á ÍslandiAkureyriArnar Þór JónssonBæjarins beztu pylsurEiginfjárhlutfallÞeófrastosListi yfir vötn á ÍslandiSúrnun sjávarNew York-borgHarry PotterHækaGuðmundur GunnarssonForsetakosningar á Íslandi 2016TeikningAskja (fjall)NáhvalurRúnar ÞórRabarbariListi yfir íslensk eiginnöfn kvenmannaÞysvákurJakobína SigurðardóttirSuður-AfríkaÆgishjálmurKnattspyrnufélagið ValurLjóðstafirHernaðarbandalagBlóðsýkingGrímseyEmmsjé GautiAlbaníaBlakMatarsódiLaufey Lín JónsdóttirPapeySveitarfélög ÍslandsHeiðlóaKjölur (fjallvegur)PlayÍbúar á ÍslandiJóhann SvarfdælingurReykjanesbærDynjandiHaukur MorthensVöluspáBjarni Benediktsson (f. 1908)LiðamótÆvintýri TinnaÞorgrímur ÞráinssonKommúnismiLilja SigurðardóttirSkúli MagnússonTáknLaugardagurPáskadagurLoftslagsbreytingarDiskóÍslenski hesturinnJón Páll SigmarssonKváradagurÍslensk sveitarfélög eftir flatarmáliRif (Snæfellsnesi)Írski lýðveldisherinnAfstæðiskenninginGrikklandKristniStari (fugl)🡆 More