Moldóva

Moldóva er landlukt land í Austur-Evrópu með landamæri að Rúmeníu til vesturs og Úkraínu til norðurs, austurs og suðurs.

Í landinu búa um 3,5 milljónir manna og stærð þess nemur um þriðjungi Íslands. Höfuðborgin heitir Kisíná (ritað Chișinău á rúmensku). Tveir þriðju landsmanna tala rúmensku sem er opinbert tungumál landsins.

Republica Moldova
Fáni Moldóvu Skjaldarmerki Moldóvu
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Limba Noastră
Staðsetning Moldóvu
Höfuðborg Kisíná
Opinbert tungumál rúmenska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Maia Sandu
Forsætisráðherra Dorin Recean
Sjálfstæði
 • Frá Sovétríkjunum 27. ágúst 1991 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
138. sæti
33.846 km²
1,4
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar
132. sæti
2.597.100
85,5/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 36,886 millj. dala (134. sæti)
 • Á mann 14.257 dalir (118. sæti)
VÞL (2019) Moldóva 0.750 (90. sæti)
Gjaldmiðill Leu (MDL)
Tímabelti UTC +2/+3
Þjóðarlén .md
Landsnúmer ++373

Landið var frá fornu fari austurhluti furstadæmisins Moldavíu en árið 1812 lét Tyrkjaveldi Rússneska keisaradæminu þennan hluta í té. Landið var þá þekkt sem Bessarabía. Vesturhlutinn varð hluti af Furstadæminu Rúmeníu þegar það varð til árið 1859. Eftir fyrri heimsstyrjöld lagði Rúmenía landið undir sig en Sovétríkin viðurkenndu ekki þau yfirráð. Í síðari heimsstyrjöld lögðu Sovétríkin Bessarabíu aftur undir sig. Moldóva lýsti síðan yfir sjálfstæði eftir hina misheppnuðu valdaránstilraun 1991.

Austan við ána Dnjestr sem rennur í gegnum landið er héraðið Transnistría þar sem meirihluti íbúa er rússneskumælandi. Transnistría lýsti yfir stofnun sjálfstæðs sovétlýðveldis árið 1990. Moldóva reyndi að leggja héraðið undir sig í stríðinu um Transnistríu en mistókst þar sem héraðið fékk herstyrk frá Rússlandi og Úkraínu. Héraðið er því de facto sjálfstætt þótt alþjóðasamfélagið líti enn á það sem hluta Moldóvu.

Moldóva er dæmigert landbúnaðarland. Þar eru meðal annars stór ræktarlönd með vínþrúgum til vínframleiðslu og rósum fyrir ilmefnaiðnaðinn.

Heiti

Landið dregur nafn sitt af fljótinu Moldóvu en árdalur þess var valdamiðstöð þegar furstadæmið Moldóva var stofnað árið 1359. Ekki er ljóst af hverju fljótið dregur nafn sitt. Sagnaritararnir Grigore Ureche og Dimitrie Cantemir segja frá því að fyrsti furstinn, Dragoș, hafi verið á úruxaveiðum og að hundur hans, Molda, hafi drukknað í fljótinu, uppgefinn eftir eltingarleikinn. Furstinn hafi nefnt fljótið eftir hundinum og furstadæmið síðan dregið nafn sitt af ánni. Sögulega héraðið Moldavía sem furstadæmið náði yfir nær frá Austur-Karpatafjöllum að Dnjestr-fljóti, og land þess er nú að hluta innan núverandi Rúmeníu, að hluta öll Moldóva og að hluta innan landamæra Úkraínu.

Um stutt skeið á 10. áratug 20. aldar var nafnið skrifað bæði Moldóva og Moldavía. Eftir upplausn Sovétríkjanna hefur einungis rúmenska útgáfan, Moldóva, verið notuð. Formlegt heiti landsins er Lýðveldið Moldóva.

Saga

Árið 2010 fann N. K. Anisjutkin steinverkfæri úr tinnu af Olduvai-gerð í Bayraki, sem eru 800.000 til 1,2 milljón ára gömul og elstu ummerki um menn í Moldóvu. Elstu merki um nútímamenn í Austur-Evrópu eru frá því fyrir 44.000 árum. Á nýsteinöld var Moldóva í miðju svæðis sem kennt er við Tripolye-menninguna og stóð frá því um 5500 til 2750 f.o.t. Hún einkenndist af fastri búsetu, landbúnaði og kvikfjárrækt og fagurlega skreyttum leirmunum.

Í fornöld bjuggu karpískir ættbálkar þar sem nú er Moldóva. Milli 1. og 7. aldar e.o.t. náðu Rómverjar yfirráðum yfir landinu tímabundið nokkrum sinnum. Vegna staðsetningar sinnar á mörkum Asíu og Evrópu fóru margir innrásarherir um Moldóvu frá síðfornöld til ármiðalda; þar á meðal Gotar, Húnar, Avarar, Búlgarar, Magýarar, Patsinakar, Kúmanar, Mongólar og Tatarar.

Í upphafi 10. aldar varð Moldóva hluti af Garðaríki eftir því sem það stækkaði í átt að Svartahafi. Fram að innrás Mongóla árið 1240 var Moldóva jaðarsvæði innan Garðaríkis, að mestu byggt austurslavneskum ættbálkum eins og Úlitsum og Tivertsum, og sat undir stöðugum árásum frá Patsinökum. Landið var ýmist hluti af furstadæmisins Halits, eða á áhrifasvæði þess. Fræðimenn hafa talið sig fundið vísanir í forfeður Rúmena, Vallaka (sem blökkumenn), á sænskum rúnasteini frá 11. öld. Árið 1164 var Andronikos Komnenos, síðar keisari, tekinn höndum af þeim, hugsanlega þar sem nú er Moldóva.

Í Hýpatíukróniku frá 13. öld er talað um Bolokóvena (sem fræðimenn telja líka Rúmena) í löndum sem lágu að furstadæmunum Halits, Volhyn og Kænugarði. Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós víggirtar borgir frá þessum tíma. Talin eru upp nöfn bæja sem tengjast Vallökum á milli ánna Dnjestr og Dnjepr. Daníel af Galisíu sigraði þá í orrustu árið 1257. Brodnikar voru önnur þjóð sem byggði svæðið á 13. öld, en uppruni þeirra er umdeildur.

Furstadæmið Moldavía

Furstadæmið Moldavía var stofnað þegar Dragoș Vodă kom að ánni Moldóvu og stofnaði þar ríki fyrir fylgjendur sína frá Maramureș. Ríki Dragoșar heyrði undir konungsríkið Ungverjaland frá miðri 14. öld, en varð sjálfstætt þegar annar vallakískur herforingi, Bogdan 1., sem hafði lent upp á kant við konunginn í Ungverjalandi, hélt yfir Karpatafjöll árið 1359 og hertók Moldavíu. Mörk furstadæmisins lágu við Karpatafjöll í vestri, Dnjester í austri, og Dóná og Svartahaf í suðri. Það náði því yfir núverandi Moldóvu, austurhluta núverandi Rúmeníu og hluta af núverandi Úkraínu. Landið nefndist Moldova á máli landsmanna, líkt og núverandi ríki. Eftirmaður Bogdans, Lațcu af Moldavíu, gerði bandalag við Pólland sem keppti við Ungverjaland um áhrif á svæðinu, og tók í kjölfarið upp kaþólska trú um 1370.

Pétur 1. af Moldavíu gerðist lénsmaður Ladisláss 2. Jagiellon konungs Póllands árið 1387. Hann lánaði konungi fé til að nota í baráttunni við þýsku riddarana og fékk héraðið Pókútíu að veði. Moldavía fékk þó aldrei yfirráð yfir héraðinu sem var umdeilt milli ríkjanna fram að orrustunni við Obertyn árið 1531. Pétur stækkaði ríki sitt yfir Dónárósa og bróðir hans lagði ungverska bæinn Cetatea Albă undir sig, sem gaf Moldavíu höfn við Svartahaf. Ungverjar og Pólverjar tókust á um áhrif sín í landinu. Ungverjar studdu Alexander 1. af Moldavíu til valda árið 1400, en hann gerðist svo bandamaður Pólverja og Vallaka gegn þeim.

Tyrkjaveldi

Vaxandi umsvif Tyrkjaveldis í Suðaustur-Evrópu leiddu til átaka um Cetatea Albă árið 1420. Eftirmenn Alexanders börðust um völdin í röð styrjalda þar til Pétur 3. Aron komst til valda árið 1451 og hóf að greiða skatt til Tyrkjaveldis. Matthías Korvínus Ungverjalandskonungur lét steypa honum af stóli og studdi Alexăndrel af Moldavíu til valda.

Á þessum árum gerðu Krímtatarar ítrekað árásir á landið. Árið 1538 varð Moldavía formlega skattland Tyrkjaveldis, en hélt þó sjálfstæði sínu. Pólsk-litháíska samveldið hélt áfram að skipta sér af innanlandsmálum í Moldavíu, enda voru pólski og moldavíski aðallinn nátengdir gegnum mægðir. Þegar Mikael djarfi hernam Moldavíu og sameinaði um stutt skeið Moldavíu, Vallakíu og Transylvaníu undir einni stjórn, sendu Pólverjar her undir stjórn Jan Zamoyski til að hrekja Vallaka frá Moldavíu. Zamoyski endurreisti Moldavíska furstann Ieremia Movilă sem gerðist lénsmaður pólska konungsins. Árið 1621 varð Moldavía svo aftur skattland Tyrkjaveldis.

Transnistría var aldrei formlega hluti furstadæmisins Moldavíu, en moldavískir bojarar áttu stórar landareignir á austurbakka Dnjester. Sagnaritarinn Grigore Ureche nefnir að kósakkar hafi ráðist á moldavísk þorp handan Dnjester, í konungsríkinu Póllandi. Margir Moldóvar gerðust sjálfir kósakkar. Ioan Potcoavă og Dănilă Apostol urðu báðir höfuðsmenn í Úkraínu. Þótt Moldóva væri innan áhrifasvæðis Tyrkjaveldis, var stór hluti Transnistríu hluti af Pólsk-litháíska samveldinu fram að skiptingu Póllands árið 1793.

Rússaveldi

Með Búkarestsamningnum 1812 lét Tyrkjaveldi Rússlandi eftir austurhluta furstadæmisins Moldavíu, þrátt fyrir mótmæli Moldavíska aðalsins, ásamt Kotyn og gömlu Bessarabíu (nú Budjak), sem Rússar höfðu þegar lagt undir sig. Þessi viðbót við Rússaveldi varð nú héraðið Moldavía og Bessarabía og naut í byrjun nokkurs sjálfræðis. Eftir 1828 minnkaði þetta sjálfræði og árið 1871 var héraðinu breytt í landstjóraumdæmið Bessarabíu. Þar var hafist handa við rússneskuvæðingu og notkun rúmensku hætt í stjórnkerfinu og í kirkjum.

Í Parísarsáttmálanum 1856 fékk furstadæmið Moldavía suðurhluta Bessarabíu og árið 1859 sameinaðist furstadæmið Vallakíu og myndaði Rúmeníu. Með Berlínarsáttmálanum 1878 gekk þessi suðurhluti Bessarabíu aftur til Rússlands. Rússar hvöttu til landnáms á svæðum þar sem Tyrkir höfðu verið hraktir burt, sérstaklega í nyrstu og syðstu héruðum Bessarabíu, og heimiluðu gyðingum fasta búsetu á svæði sem náði meðal annars yfir héraðið. Hlutfall rúmenskumælandi íbúa féll úr 86% 1816 í um 52% árið 1905. Gyðingaofsóknir leiddu til þess að þúsundir gyðinga fluttust þaðan til Bandaríkjanna.

Fyrri heimsstyrjöldin varð til þess að efla sjálfsmynd íbúa Bessarabíu þegar um 300.000 íbúar voru kallaðir í rússneska herinn. Eftir rússnesku byltinguna 1917 var stofnað þjóðarráð, Sfatul Țării, sem lýsti yfir stofnun sjálfstæðs lýðstjórnarlýðveldis innan rússneska sambandsríkisins í desember 1917 og kaus ríkisstjórn.

Stór-Rúmenía

Rúmenski herinn lagði Bessarabíu undir sig í janúar 1918 eftir beiðni þjóðarráðsins. Þann 6. febrúar lýsti Bessarabía yfir sjálfstæði frá Rússlandi og óskaði aðstoðar franska hersins í Rúmeníu og rúmenska hersins. Þann 9. apríl samþykkti þjóðarráðið að sameinast konungsríkinu Rúmeníu. Sameiningin var háð skilyrðum um umbætur í landbúnaði, sjálfstjórn og virðingu fyrir mannréttindum. Hluti starfandi þings ákvað að fella þessi skilyrði niður þegar Búkóvína og Transylvanía sameinuðust líka, þótt sagnfræðingar hafi bent á að það hafi ekki haft umboð til þess.

Flestir bandamanna samþykktu sameininguna með Parísarsáttmálanum 1920, sem var þó ekki staðfestur af öllum. Sovétríkin viðurkenndu ekki yfirráð Rúmeníu og uppreisnir gegn stjórninni áttu sér stað í Kotyn og Bender. Sovétlýðveldið Bessarabía var stofnað sem útlagastjórn. Eftir að Tatarbunaruppreisnin 1924 mistókst var sjálfstjórnarhéraðið Moldavía, sem var innan Rússlands og náði aðeins yfir Transnistríu, gert að sovétlýðveldinu Moldavíu innan sovétlýðveldisins Úkraínu.

Síðari heimsstyrjöld og Sovéttíminn

Með Mólotov-Ribbentrop-sáttmálanum milli Þýskalands og Sovétríkjanna 1939 var ákveðið að Bessarabía væri innan áhrifasvæðis þeirra síðarnefndu. Í júní 1940 settu Sovétríkin Rúmeníu úrslitakosti um að afhenda Bessarabíu og Norður-Búkóvínu sem Rúmenía gerði næsta dag. Skömmu síðar var sovétlýðveldið Moldavía stofnað á ný. Það náði yfir um 65% af Bessarabíu og 50% af fyrrum sovétlýðveldinu Moldavíu (Transnistríu). Þýskir íbúar yfirgáfu landið sama ár.

Þegar öxulveldin réðust inn í Sovétríkin lagði Rúmenía Bessarabíu og Norður-Búkóvínu aftur undir sig, auk svæðis sem var kallað landstjóraumdæmið Transnistría. Rúmenski herinn í bandalagi við þann þýska, myrti og flutti burt 300.000 gyðinga, þar á meðal 147.000 frá Bessarabíu og Búkóvínu. Af þeim létust 90.000. Milli 1941 og 1944 börðust andspyrnuhópar gegn rúmensku stjórninni. Sovétherinn náði landsvæðinu aftur á sitt vald árið 1944 og endurreisti sovétlýðveldið. 256.800 Moldóvar voru skráðir í Sovétherinn fyrir Aðra Jassi-Kisinev-sóknina í ágúst 1944 og 40.592 þeirra létu lífið.

Milli 1940 og 1941 og 1944 til 1953 létu yfirvöld í Sovétríkjunum reglulega flytja hópa íbúa svæðisins til Úralfjalla, Síberíu og Kasakstan. Stærstu fólksflutningarnir áttu sér stað 12.-13. júní 1941 og 5.-6. júlí 1949. Undir stjórn Sovétríkjanna voru pólitískar ofsóknir, handtökur og aftökur algengar. Vegna þurrka og óhóflegra framleiðslukvóta sem sovétstjórnin kom á, varð útbreidd hungursneyð í suðvesturhluta Sovétríkjanna árið 1946. Í Moldavíska sovétlýðveldinu voru 216.000 andlát og 350.000 tilvik vannæringar skráð. Á árunum 1944 til 1953 voru nokkrir andspyrnuhópar gegn sovétstjórninni virkir í Moldóvu, en öryggislögreglunni NKVD tókst að ráða niðurlögum þeirra.

Eftir stríðið stóðu sovésk yfirvöld fyrir innflutningi rússneskumælandi fólks til Moldavíu, meðal annars til að bæta upp fólksfækkun af völdum stríðsins. Á 8. og 9. áratugnum voru miklar fjárfestingar frá ríkinu lagðar í uppbyggingu iðnfyrirtækja og húsnæði. Yfir milljarður rúblna var settur í byggingarverkefni í höfuðborginni, Kisinev, eftir 1971.

Sovétstjórnin reyndi líka að efla sérstaka sjálfsmynd íbúa Moldóvu, sem væru ólíkir Rúmenum. Samkvæmt opinberri stefnu stjórnarinnar var tungumál Moldóva ólíkt rúmensku. Til að leggja áherslu á þennan mun var tekið upp á því að skrifa moldóvísku með kýrillísku letri í stað latínuleturs, sem hafði verið notað til að skrifa rúmensku frá 1860. Öll andstaða við stjórnina var bæld niður og meðlimir ólöglegra stjórnmálahreyfinga fengu langa fangelsisdóma. Nefnd um rannsóknir á einræðisstjórn kommúnista í Moldóvu hefur rannsakað og birt skjöl um mannréttindabrot kommúnistastjórnarinnar síðan 2010.

Þegar umbætur í anda glasnost og perestrojka hófust í Sovétríkjunum á 9. áratugnum var Lýðræðishreyfing Moldóvu stofnuð. Hún varð síðan að Alþýðufylkingu Moldóvu. Moldóva tók skref í átt að sjálfstæði frá árinu 1988 líkt og mörg önnur sovétlýðveldi. Alþýðufylkingin stóð fyrir fjöldamótmælum í Chișinău 27. ágúst 1989. Stjórn sovétlýðveldisins neyddist þá til að samþykkja tungumálalög sem lýstu því yfir að moldóvska rituð með latínuletri yrði ríkismál landsins og tengsl þess við rúmensku viðurkennd. Í nóvember urðu óeirðir vegna andstöðu við stjórn sovétlýðveldisins.

Sjálfstæði

Fyrstu lýðræðislegu kosningarnar í Moldóvu voru haldnar í febrúar og mars 1990. Mircea Snegur var kjörinn þingforseti og Mircea Druc forsætisráðherra. Þann 23. júní 1990 samþykkti þingið sjálfstæðisyfirlýsingu þar sem moldóvsk lög fengu forgang fram yfir lög Sovétríkjanna. Eftir misheppnaða valdaránið í Sovétríkjunum 1991 lýsti Moldóva yfir fullu sjálfstæði 27. ágúst 1991. Seinna sama ár tók Moldóva þátt í stofnun Samveldis sjálfstæðra ríkja ásamt fleiri fyrrum sovétlýðveldum, en undirritaði ekki hernaðarþáttinn og lýsti sig hlutlaust ríki. Þremur mánuðum síðar, eða 2. mars 1992, var Moldóva viðurkennd sem sjálfstætt ríki af Sameinuðu þjóðunum. Árið 1994 gerðist Moldóva aðili að Partnership for Peace-verkefni NATO og 29. júní 1995 varð landið aðili að Evrópuráðinu.

Í Transnistríu þar sem yfir helmingur íbúa er af rússneskum og úkraínskum uppruna, var lýst yfir stofnun sjálfstæðs sovétlýðveldis með höfuðborg í Tíraspol 16. ágúst 1990. Ástæðan var ótti við vaxandi þjóðernishyggju í Moldóvu. Veturinn 1991-1992 urðu átök milli moldóvskra lögregluyfirvalda, hers Transnistríu og rússneska hersins. Um vorið brutust út skammvinn vopnuð átök sem lyktaði með vopnahléi og stofnun hlutlauss svæðis með þrískipta lögsögu.

Í janúar 1992 tók landið upp markaðsbúskap með frjálsri verðlagningu sem leiddi til verðbólgu. Árið 1993 gaf stjórn landsins út nýjan gjaldmiðil, moldóvskt leu. Landið gekk í gegnum alvarlega efnahagskreppu milli 1992 og 2001 og meirihluti íbúa lenti undir fátæktarmörkum. Eftir 2001 tók efnahagur landsins að batna og fram til 2008 var stöðugur hagvöxtur. Í upphafi 21. aldar fluttust margir íbúar Moldóvu til annarra landa í leit að atvinnu. Peningasendingar brottfluttra Moldóva eru næstum 38% af vergri landsframleiðslu Moldóvu, sem er önnur hæsta prósenta í heimi á eftir Tadsíkistan með 45%.

Í nóvember 2014 tók Seðlabanki Moldóvu yfir starfsemi stærstu lánafyrirtækja landsins. Rannsóknir á þeim leiddu í ljós víðtækt fjármálamisferli með lánum upp á 1 milljarð dala til fyrirtækja ísraelsk-moldóvska athafnamannsins Ilan Shor. Hneykslið átti þátt í að auka fylgi flokks sósíalista sem er hallur undir Rússa og leiddi til forsetakjörs Igors Dodon árið 2016. Árið 2020 var Maia Sandu kjörin forseti, fyrst kvenna, en hún er höll undir Evrópusambandið. Í þingkosningum 2021 unnu Evrópusinnaðir flokkar stórsigur.

Landfræði

Moldóva 
Landslag á bökkum Dnjestr.
Moldóva 
Strönd við Dnjester við Vadul lui Vodă.

Moldóva liggur milli 45. og 49. breiddargráðu norður og er að mestu milli 26. og 30. lengdargráðu austur (lítill hluti liggur austan við 30°). Landið er alls 33.851 ferkílómetrar að stærð.

Stærsti hluti landsins (um 88%) nær yfir héraðið Bessarabíu, milli ánna Prut og Dnjestr, en mjó landræma liggur austan við Dnjestr (Transnistría). Áin Prut myndar vesturlandamæri Moldóvu. Hún rennur út í Dóná sem aftur rennur í Svartahaf. Moldóva á um 480 metra langan hluta af bakka Dónár, þar sem höfnin í Giurgiulești stendur. Í austri er Dnjestr aðaláin og rennur gegnum allt landið frá norðri til suðurs. Árnar Răut, Bîc, Ichel og Botna renna út í hana. Áin Ialpug rennur út í eitt lónið við ósa Dónár, en Cogâlnic rennur út í lón við Svartahaf.

Moldóva er landlukt land, þótt það liggi nálægt Svartahafi. Aðeins 3km af úkraínsku landi skilja milli suðurhluta Moldóvu og ósum Dnjestr við Svarthaf. Þótt landið sé að mestu hæðótt er hæsti punktur þess Bălănești-hæð, aðeins 430 metrar á hæð. Hæðirnar í Moldóvu eru hluti af Moldavíuhálendinu sem tengist Karpatafjöllum. Þær skiptast milli Dnjestrhæða (hæðir í Norður-Moldóvu og Dnjestrhryggurinn), Moldavíusléttunnar (miðhluti Prutdals og Bălți-gresjan) og miðsléttunnar (Ciuluc-Soloneț-hæðir, Cornești-hæðir, Codri, Neðri-Dnjestrhæðir, Neðri-Prutdalur og Tigheci-hæðir). Í suðri er flatlend Bugeac-sléttan. Land Moldóvu austan við Dnjester skiptist milli Pódólíusléttunnar og hluta Evrasíugresjunnar.

Helstu borgir landsins eru höfuðborgin Kisíná í miðju landsins, Tíraspol (í Transnistríu), Bălți í norðri og Bender í suðaustri. Comrat er höfuðstaður Gagaúsíu.

Stjórnmál

Stjórnsýslueiningar

Moldóva skiptist í 32 stjórnsýsluumdæmi, þrjú bæjarfélög og tvö sjálfstjórnarhéruð (Gagaúsía og Transnistría). Staða Transnistríu er umdeild og Moldóva hefur ekki stjórn hennar með höndum.

Í Moldóvu eru 66 borgir og 916 sveitarfélög.

Moldóva 

32 stjórnsýsluumdæmi:

  1. Anenii Noi
  2. Basarabeasca
  3. Briceni
  4. Cahul
  5. Cantemir
  6. Călărași
  7. Căușeni
  8. Cimișlia
  9. Criuleni
  10. Dondușeni
  11. Drochia
  12. Dubăsari
  13. Edineț
  14. Fălești
  15. Florești
  16. Glodeni
  17. Hîncești
  18. Ialoveni
  19. Leova
  20. Nisporeni
  21. Ocnița
  22. Orhei
  23. Rezina
  24. Rîșcani
  25. Sîngerei
  26. Soroca
  27. Strășeni
  28. Șoldănești
  29. Ștefan Vodă
  30. Taraclia
  31. Telenești
  32. Ungheni

þrjú bæjarfélög:

  1. Chișinău
  2. Bălți
  3. Bender

eitt sjálfstjórnarsvæði:

  1. Gagaúsía

og eitt umdeilt svæði:

  1. Transnistría


Menning

Íþróttir

Þjóðaríþrótt Moldóva er Trântă, sem er fangbragðaíþrótt. Knattspyrna er hins vegar langvinsælasta íþróttin meðal almennings. Sigursælasta liðið í moldóvsku deildarkeppninni er FC Sheriff Tiraspol frá Transnistríu. Landslið Moldóvu hefur átt erfitt uppdráttar og oftar en ekki hafnað í neðsta sæti í sínum riðli í forkeppni EM og HM.

Íþróttamenn frá Moldóvu kepptu undir merkjum Sovétríkjanna á Ólympíuleikum en frá leikunum í Atlanta 1996 hefur Moldóva keppt undir eigin fána. Landið vann til sinna fyrstu verðlauna strax á leikunum í Atlanta, silfurverðlaun í eikjuróðri og bronsverðlaun í grísk-rómverskri glímu. Í Sidney 2000 hlutu Moldóvar aftur silfurverðlaun og bronsverðlaun, að þessu sinni fyrir skotfimi og hnefaleika. Fimmtu og síðustu verðlaun Moldóva komu svo í Peking 2008, brons í hnefaleikum.

Tilvísanir

Tags:

Moldóva HeitiMoldóva SagaMoldóva LandfræðiMoldóva StjórnmálMoldóva MenningMoldóva TilvísanirMoldóvaAustur-EvrópaKisínáLandLandamæriLandluktRúmenskaRúmeníaÚkraína

🔥 Trending searches on Wiki Íslenska:

Suður-KóreaLeðurblökurSkriðdýrJarðsvínaættSveinn BjörnssonGuðrún Eva MínervudóttirVöluspáSeinni heimsstyrjöldinAnnars stigs jafnaPsychoSuður-AfríkaÞorskurGeðklofiForsetakosningar á Íslandi 2020Fiann PaulEinar BenediktssonArnar Þór JónssonLýðræðiEivør PálsdóttirListi yfir þjóðvegi á ÍslandiAlbert EinsteinSveindís Jane JónsdóttirFæreyjarGunnar Smári EgilssonGuðni Th. JóhannessonVetrarstríðiðEldfjöll ÍslandsBandamenn (seinni heimsstyrjöldin)Gildishlaðinn textiBrasilíaSveitarfélagið ÖlfusLína langsokkurHeklaVestfirðirHerbert GuðmundssonSiglunesXanana GusmãoEgyptalandMynsturForsíðaAkranesÍvan PavlovForsetningÍslenska kvennalandsliðið í knattspyrnuNorðurland vestraSorpkvörnKötturÍrska lýðveldiðLitáenLjóstillífunÓlafur pái HöskuldssonListi yfir íslensk póstnúmerK-vítamínEinokunarversluninSteypireyðurÍslenska sauðkindinGuðrún BjörnsdóttirDagur B. EggertssonUmsátrið um KinsaleÍslenskar mállýskurIan HunterFermetriISO 8601SagnorðXboxEinar Þorsteinsson (f. 1978)ÓslóBjörgvin HalldórssonHelsinkiDýrForsetakosningar á Íslandi 1996Listi yfir skammstafanir í íslenskuListi yfir landsnúmerBeinagrind mannsinsÁfengiWikipediaBessastaðirStuðmennNáttúruauðlind🡆 More