Kanada: Land í Norður-Ameríku

Kanada er annað stærsta land í heimi að flatarmáli (aðeins Rússland er stærra) og nær yfir nyrðri hluta Norður-Ameríku, frá Kyrrahafi í vestri til Atlantshafs í austri og að Norður-Íshafinu í norðri.

Í suðri og vestri á Kanada 8.891 km löng landamæri að Bandaríkjunum sem eru lengstu landamæri tveggja landa í heiminum. Kanada er sambandsríki, sem tíu fylki og þrjú sjálfstjórnarsvæði mynda. Ottawa er höfuðborg Kanada, en stærstu þéttbýli landsins eru í kringum Toronto, Montreal og Vancouver.

Kanada
Canada
Fáni Kanada Skjaldarmerki Kanada
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
A Mari Usque Ad Mare (latína)
Frá hafi til hafs
Þjóðsöngur:
O Canada
Staðsetning Kanada
Höfuðborg Ottawa
Opinbert tungumál enska og franska
Stjórnarfar Sambandsríki með þingbundna konungsstjórn

Konungur Karl 3.
Forsætisráðherra Justin Trudeau
Landstjóri Mary Simon
Sjálfstæði frá Bretlandi
 • Bresku Norður-Ameríkulögin 1. júlí 1867 
 • Westminsterlögin 11. desember 1931 
 • Kanadalögin 17. apríl 1982 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
2. sæti
9.984.670 km²
11,76
Mannfjöldi
 • Samtals (2023)
 • Þéttleiki byggðar
37. sæti
40.000.000
3,5/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 1.979 millj. dala (15. sæti)
 • Á mann 51.713 dalir (20. sæti)
VÞL (2019) Kanada: Heiti, Saga, Landfræði 0.929 (16. sæti)
Gjaldmiðill dalur
Tímabelti UTC−3,5 til −8
Þjóðarlén .ca
Landsnúmer ++1

Ýmsar frumbyggjaþjóðir hafa búið þar sem Kanada er nú í þúsundir ára. Á 16. öld hófu Bretar og Frakkar landkönnun og síðar landnám á austurströndinni. Eftir fjölmargar styrjaldir gaf Frakkland eftir nær allar nýlendur sínar í Norður-Ameríku árið 1763. Kanada var stofnað með Bresku Norður-Ameríkulögunum frá 1867 þegar þrjár nýlendur í Bresku Norður-Ameríku voru sameinaðar sem Sjálfstjórnarsvæðið Kanada. Eftir þetta hófust breytingar og skiptingar landsvæða undir breskri stjórn jafnframt þróun í átt til aukins sjálfstæðis. Aukið sjálfræði varð til þegar Westminster-lögin 1931 voru samþykkt og landið varð að fullu sjálfstætt með Kanadalögunum 1982 þar sem síðustu leifunum af yfirráðum breska þingsins var eytt úr Stjórnarskrá Kanada.

Í Kanada er þingræði og þingbundin konungsstjórn. Stjórnkerfi landsins byggist á Westminster-kerfinu. Forsætisráðherra Kanada er stjórnarleiðtogi en Bretakonungur, Karl 3., er þjóðhöfðingi landsins. Kanada er samveldisland og tvö alríkistungumál, enska og franska, eru í landinu. Landið situr hátt á listum yfir gagnsæi, borgaraleg réttindi, lífsgæði, viðskiptafrelsi og menntun. Það er fjölmenningarsamfélag sem varð til við aðflutning fólks frá mörgum löndum. Samband Kanada við Bandaríkin hefur haft mikil áhrif á efnahag þess og menningu.

Kanada er þróað ríki sem er í 20. sæti lista yfir lönd eftir vergri landsframleiðslu á mann og 16. sæti á vísitölu um þróun lífsgæða. Hagkerfi landsins er það tíunda stærsta í heimi og byggist aðallega á ríkulegum náttúruauðlindum og víðtækum alþjóðlegum viðskiptatengslum. Kanada á aðild að fjölmörgum alþjóðastofnunum og samtökum eins og Sameinuðu þjóðunum, NATO, Sjö helstu iðnríkjum heims, Tíu helstu iðnríkjum heims, G20, USMCA, Breska samveldinu, Samtökum frönskumælandi ríkja, Efnahagssamstarfi Asíu- og Kyrrahafsríkjanna og Samtökum Ameríkuríkja.

Heiti

Nafnið Kanada er talið eiga uppruna sinn í Írókesaorðinu kanata sem þýðir „þorp“, „byggð“ eða „kofaþyrping“. Árið 1535 noturðu frumbyggjar orðið til að vísa landkönnuðinum Jacques Cartier á þorpið Stadacona, þar sem nú stendur borgin Quebec. Cartier notaði síðan orðið Canada yfir allt svæðið sem heyrði undir Donnacona, höfðingja Stadacona. Árið 1545 voru evrópsk kort farin að nota nafnið yfir landsvæðið við Lawrence-fljót.

Frá 16. til 18. aldar vísaði heitið Canada til þess hluta af Nýja Frakklandi sem stóð við Lawrence-fljót. Árið 1791 varð þetta svæði að tveimur breskum nýlendum sem nefndust Efri Kanada og Neðri Kanada, saman nefndar Kanödurnar (enska: The Canadas) þar til þær voru sameinaðar í eina Kanadasýslu árið 1841.

Þegar landið var gert að sambandsríki árið 1867 var Canada tekið upp sem opinbert heiti hins nýja ríkis á Lundúnaráðstefnunni og talað um það sem „sjálfstjórnarsvæði“ (enska: dominion). Á 6. áratug 20. aldar var hætt að kalla landið sjálfstjórnarsvæði á opinberum skjölum.

Kanadalögin frá 1982 nota aðeins heitið „Kanada“ og síðar sama ár var nafni þjóðhátíðardags Kanada breytt í „Kanadadagurinn“ úr „Dominion day“.

Saga

Frumbyggjar Kanada

Almennt er talið að landnám manna í Ameríku hafi átt sér stað fyrir um 14.000 árum og að fyrstu mennirnir hafi komið þangað um landbrú yfir Beringssund frá Síberíu. Elstu minjar um fornindíána í Kanada hafa fundist í Old Crow Flats og Bluefish Caves. Samfélög frumbyggja einkenndust af föstum bústöðum, landbúnaði og víðtækum viðskiptatengslum. Sum menningarsamfélög frumbyggja voru horfin af sjónarsviðinu á 15. öld og hafa uppgötvast við fornleifarannsóknir.

Talið er að frumbyggjar Kanada hafi verið milli 200.000 og 2 milljónir þegar Evrópumenn komu þangað. Talan 500.000 er notuð af Konunglegri nefnd um málefni frumbyggja sem viðmið. Í kjölfar landnáms Evrópumanna fækkaði frumbyggjum um 40 til 80% og sumar frumþjóðir, eins og Beóþúkkar, hurfu alveg. Fækkunin stafaði bæði af sjúkdómum sem Evrópumenn fluttu með sér (eins og inflúensu, mislingum og bólusótt) og frumbyggja skorti ónæmi gegn, átökum við landnema og stjórnvöld þeirra, og landráni sem takmarkaði aðgang frumbyggja að náttúruauðlindum sem þeir höfðu áður nýtt sér til viðurværis.

Þrátt fyrir átök voru samskipti frumbyggja Kanada við evrópska Kanadabúa oftast friðsamleg. Frumþjóðirnar og Métisar (afkomendur frumbyggja og evrópskra Kanadabúa) léku lykilhlutverk í nýlendustofnun Evrópubúa í Kanada, sérstaklega með því að aðstoða skinnakaupmenn og landkönnuði í skinnaversluninni. Samskipti Bresku krúnunnar og frumþjóðanna hófust á nýlendutímanum en Inúítar höfðu minna af evrópskum landnemum að segja framan af. Frá lokum 18. aldar hófu evrópskir Kanadabúar að reyna að aðlaga menningu frumþjóðanna að þeirra eigin menningu. Þetta náði hápunkti á 19. og 20. öld þegar kerfi heimavistarskóla var komið upp af ríkisstjórn Kanada þar sem börn frumbyggja voru neydd til að dveljast fjarri fjölskyldum sínum og taka upp evrópska siði og venjur, um leið og þau máttu þola margvíslegt ofbeldi og misnotkun af hálfu starfsliðs skólanna. Sérstakri sáttanefnd var komið á fót af ríkisstjórninni 2008 til að ræða viðbrögð og mögulegar bætur handa þessum börnum.

Landnám Evrópubúa

Fyrstir Evrópubúa til að heimsækja landið voru norrænir menn frá Grænlandi, sem námu þar land í kringum árið 1000 eftir Krist, kölluðu það Vínland og settu á fót byggð í stuttan tíma. Fornleifar sem fundist hafa á L'Anse aux Meadows á norðurodda Nýfundnalands eru taldar leifar af slíkri byggð. Eftir að sú byggð lagðist af komu engir Evrópubúar þangað svo vitað sé fyrr en 1497, þegar ítalski sæfarinn Giovanni Caboto sigldi að Atlantshafsströnd Kanada og gerði tilkall til landsins í nafni Hinriks 7. Englandskonungs. Árið 1534 kannaði franski landkönnuðurinn Jacques Cartier Lawrence-flóa þar sem hann reisti 10 metra háan kross með áletruninni „lengi lifi konungur Frakklands“ og gerði þar með tilkall til Nýja Frakklands í nafni Frans 1. Frakkakonungs. Snemma á 16. öld hófu Baskar hval- og fiskveiðar út frá bækistöðvum á Atlantshafsströnd Kanada. Fyrstu landnemabyggðirnar voru skammlífar vegna erfiðra veðurskilyrða, ótryggra siglingaleiða og samkeppni frá Norðurlöndunum.

Árið 1583 stofnaði Humphrey Gilbert bæinn St. John's á Nýfundnalandi með konungsleyfi frá Elísabetu 1. Englandsdrottningu. Þetta var fyrsta nýlenda Englendinga í Nýja heiminum, þótt í raun væri um árstíðabundna bækistöð að ræða. Um 1600 stofnuðu Frakkar verslunarstaðinn Tadoussac við Lawrence-fljót. Franski landkönnuðurinn Samuel de Champlain kom til Kanada 1603 og stofnaði fyrstu varanlegu landnemabyggðirnar í Port Royal 1605 og Quebec 1608.

Frakkar námu svo land við Saint Lawrence-fljót og á Atlantshafsströnd Kanada (Akadía) á 16. og 17. öld. Skinnakaupmenn og trúboðar könnuðu Vötnin miklu, Hudson-flóa og vatnasvið Mississippifljóts allt til Louisiana. Bjórastríðin um yfirráð yfir skinnaversluninni brutust út um miðja 17. öld.

Englendingar stofnuðu fleiri nýlendur á Nýfundnalandi eftir 1610 og Nýlendurnar þrettán voru stofnaðar sunnar í álfunni skömmu síðar. Fjögur stríð brutust út milli frumþjóðanna og Frakka frá 1689 til 1763, en síðustu styrjaldirnar á svæðinu tengdust Sjö ára stríðinu. Bretar náðu yfirráðum yfir meginlandshluta Nova Scotia árið 1713 með Utrecht-samningnum og Kanada, ásamt meirihluta Nýja Frakklands, féllu í hlut Breta eftir að Sjö ára stríðinu lauk 1763.

Breska Norður-Ameríka

Frakkland afsalaði því nær öllu Nýja Frakklandi, eins og þeir nefndu það, til Bretlands, ásamt Akadíu, með Parísarsáttmálanum 1763. Bretland kom á fót nýlendunum Nova Scotia, Neðra Kanada og Efra-Kanada. Bretonhöfði var sérstakt svæði sem var seinna sameinað Nova Scotia. Með Konungstilskipun 1763 var Quebec gert að sérstöku fylki með meiri sjálfstjórn, þar sem staða frönskunnar, kaþólskrar trúar og fransks réttar var tryggð. Land nýlendunnar var stækkað þannig að það náði að Vötnunum miklu og árdal Ohio-fljóts. Með þessu reyndu bresk yfirvöld að forðast átök við frönskumælandi íbúa svæðisins á sama tíma og enskumælandi Nýlendurnar þrettán í suðri voru í auknum mæli farnar að mótmæla breskum yfirráðum. Sérréttindi Quebec urðu sem olía á þann eld sem síðar braust út sem Frelsisstríð Bandaríkjanna.

Með Parísarsáttmálanum 1783 var sjálfstæði Bandaríkjanna viðurkennt og þau fengu allt land sunnan við Vötnin miklu og austan við Mississippifljót. Þar á meðal voru svæði sem áður tilheyrðu Quebec. Fyrir og eftir Frelsisstríðið yfirgáfu margir þeir sem hliðhollir voru Bretum Nýlendurnar þrettán og settust að í Kanada. Breytt íbúasamsetning strandhéraðanna varð til þess að Nýja-Brúnsvík var aðskilin frá Nova Scotia og Saint John varð fyrsta borg Kanada. Sama gerðist í Quebec sem var skipt í enskumælandi Efra-Kanada (síðar Ontario) og frönskumælandi Neðra-Kanada (síðar Quebec). Hvor nýlenda hafði sitt eigið þing.

Kanadanýlendurnar tvær urðu vígvöllur í Stríðinu 1812 milli Bretlands og Bandaríkjanna. Þegar samið var um frið 1815 var engum landamærum breytt.. Aðflutningur fólks frá Bretlandseyjum jókst mikið og 960.000 fluttu til Kanada milli 1815 og 1850. Margir innflytjendur voru að flýja Hallærið mikla á Írlandi og Hálandahreinsanirnar í Skotlandi. Fjórðungur til þriðjungur allra innflytjenda til Kanada fyrir 1891 létust af völdum smitsjúkdóma.

Uppreisnirnar 1837 hófust í Kanadanýlendunum vegna kröfunnar um ábyrgðarstjórn. Í kjölfarið var gerð skýrsla þar sem mælt var með ábyrgðarstjórn og aðlögun frönskumælandi Kanadabúa að enskri menningu. Sambandslögin 1840 sameinuðu Kanadanýlendurnar í eitt Kanadafylki og ábyrgðarstjórn var komið á í öllum nýlendum Bresku Norður-Ameríku fyrir 1849. Með Oregonsamningnum 1846 var bundinn endir á deilur um landamæri Oregon og landamæri Kanada lengdust í vestur eftir 49. breiddargráðu. Með þessu opnaðist leið fyrir stofnun bresku nýlendanna á Vancouver-eyju 1849 og Bresku Kólumbíu 1858. Kaup Bandaríkjanna á Alaska frá Rússaveldi 1867 bjuggu til landamæri að Kanada í vestri en deilur héldu áfram um nákvæma staðsetningu þeirra.

Stofnun sambandsríkis

Kanada: Heiti, Saga, Landfræði 
Söguleg þróun fylkja Kanada

Þann 1. júlí 1867 voru fjórar nýlendur, Ontario, Quebec, Nova Scotia og Nýja-Brúnsvík, sameinaðar í eitt sambandsríki Kanada með Bresku Norður-Ameríkulögunum. Kanada tók við stjórn Róbertslands og Norðvestursvæðisins sem voru sameinuð sem Norðvesturhéruðin en eftir Rauðáruppreisnina þar sem Métisar gerðu uppreisn gegn Kanadastjórn var fylkið Manitóba stofnað 1870. Breska Kólumbía og Vancouver-eyja (sem höfðu sameinast 1866) gengu í sambandið 1871 gegn loforði um að járnbraut næði til Victoria innan 10 ára, og Eyja Játvarðs prins gekk í sambandið 1873. Þegar gullæðið í Klondike hófst í Norðvesturhéruðunum var Júkon skilið frá þeim. Alberta og Saskatchewan urðu fylki 1905. Milli 1871 og 1896 fluttist nær fjórðungur íbúa Kanada suður til Bandaríkjanna.

Til að opna vesturhluta landsins fyrir nýjum landnemum var samþykkt að gera þrjár járnbrautir þvert yfir landið (þar á meðal Kanadísku Kyrrahafsjárnbrautina), hefja landnám á sléttunum samkvæmt kanadísku þjóðlendulögunum (Dominion Lands Act) og stofna kanadísku riddaralögregluna til að treysta yfirráð alríkisstjórnarinnar yfir svæðunum. Þessi útþensla landnáms í vesturátt varð til þess að frumþjóðirnar á sléttunum hröktust inn á verndarsvæði indíána og evrópskir landnemar stofnuðu þar nýlendublokkir sem skiptust eftir uppruna landnemanna. Við þetta hrundu stofnar vísunda á sléttunum sem voru lagðar undir landbúnað í stórum stíl, aðallega nautgriparækt og hveitirækt. Frumbyggjar á sléttunum misstu hefðbundnar veiðilendur sínar og féllu úr hungri og sjúkdómum. Neyðaraðstoð frá alríkisstjórninni var háð því skilyrði að indíánar flyttu sig inn á verndarsvæðin. Á þessum tíma voru kanadísku indíánalögin samþykkt, en þau fólu í sér að alríkisstjórnin tók sér vald yfir samfélögum frumbyggja, stjórnkerfi þeirra, menntun og lagalegum réttindum.

Upphaf 20. aldar

Eftir þetta gengu aðrar breskar nýlendur og sjálfstjórnarsvæði fljótlega í bandalag við Kanada og frá og með 1880 náði Kanada yfir það svæði, sem að það nær yfir í dag, fyrir utan Nýfundnaland og Labrador, sem sameinuðust Kanada árið 1949. Þar sem Bretland fór með utanríkismál landsins gilti stríðsyfirlýsing Breta 1914 sjálfkrafa einnig fyrir Kanada, sem þar með varð þátttakandi í Fyrri heimsstyrjöld. Sjálfboðaliðar sem fóru á Vesturvígstöðvarnar urðu síðar hluti af kanadísku herdeildinni sem tók þátt í orrustunni um Vimy-hálsinn og fleiri stórorrustum. Af þeim 625.000 Kanadabúum sem tóku þátt í heimsstyrjöldinni létust 60.000 og 172.000 særðust. Herkvaðningarkreppan braust út 1917 þegar Sambandsflokkurinn vildi taka upp almenna herkvaðningu til að bæta við minnkandi raðir hermanna í virkri herþjónustu og íbúar Quebec brugðust við með harðri andstöðu. Herþjónustulögin sem komu á herskyldu urðu til þess að auka enn á andstöðu frönskumælandi Kanadabúa og ollu klofningi innan Frjálslynda flokksins. Eftir að stríðinu lauk gerðist Kanada sjálfstæður aðili að Þjóðabandalaginu 1919. Með Westminister-lögunum frá 1931 fékk Kanada opinberlega fulla sjálfstjórn.

Efnahagslíf Kanada varð fyrir áfalli í Kreppunni miklu á 4. áratugnum og lífskjör versnuðu um allt land. Til að bregðast við samdrættinum kom flokkurinn Co-operative Commonwealth Federation í Saskatchewan á umbótum í anda velferðarríkja undir forystu Tommy Douglas á 5. og 6. áratugnum. Samkvæmt ráði forsætisráðherrans William Lyon Mackenzie King lýsti Kanada Þýskalandi stríði á hendur 10. september 1939 með yfirlýsingu Georgs 6., sjö dögum á eftir Bretlandi. Töfin átti að undirstrika sjálfstæði Kanada.

Fyrstu kanadísku hersveitirnar komu til Bretlands í desember 1939. Alls tóku yfir milljón Kanadabúar þátt í Síðari heimsstyrjöld, um 42.000 létust og 55.000 særðust. Kanadískar hersveitir léku stór hlutverk í nokkrum lykilorrustum stríðsins, þar á meðal í árásinni á Dieppe 1942, innrás Bandamanna á Ítalíu, innrásinni í Normandí, Overlord-aðgerðinni og orrustunni um Scheldt 1944. Hollenska konungsfjölskyldan fékk hæli í Kanada eftir að Þjóðverjar hernámu Holland og Kanada hlaut heiðurinn af því að frelsa Holland undan hernámsliðinu.

Efnahagur Kanada blómstraði í stríðinu þar sem landið framleiddi hergögn fyrir Bretland, Kína og Sovétríkin. Þrátt fyrir aðra herkvaðningarkreppu í Quebec 1944 stóð efnahagur landsins mjög vel þegar stríðinu lauk.

Samtíminn

Fjármálavandræði í kjölfar Kreppunnar miklu leiddu til þess að Sjálfstjórnarríkið Nýfundnaland gaf eftir ábyrgðarstjórn sína og gerðist krúnunýlenda undir stjórn bresks landstjóra. Eftir tvær þjóðaratkvæðagreiðslur 1949 kusu íbúar Nýfundnalands að gerast fylki í Kanada.

Hagvöxtur í kjölfar Síðari heimsstyrjaldar og stefna frjálslyndra ríkisstjórna eftir stríð leiddu til þess að til varð kanadísk sjálfsmynd. Fáni Kanada var tekinn upp árið 1965, franska og enska voru gerð að tveimur opinberum málum landsins 1969, og fjölmenning varð opinber stefna landsins 1971. Ýmsar breytingar í anda sósíaldemókratisma voru útfærðar, eins og Sjúkratryggingakerfi Kanada, Lífeyriskerfi Kanada og Námslánakerfi Kanada, þrátt fyrir andstöðu sumra fylkisstjórna.

Eftir röð ráðstefna um stjórnarskrá landsins voru Kanadalögin 1982 samþykkt af breska þinginu, en með þeim voru síðustu leifar yfirráða breska þingsins afnumin. Réttindaskrá Kanada var jafnframt tekin upp. Síðan þá hefur Kanada verið sjálfstætt og fullvalda ríki, þótt Bretadrottning sé áfram þjóðhöfðingi landsins. Árið 1999 varð Nunavut þriðja sjálfstjórnarsvæði Kanada eftir nokkrar samningaviðræður við alríkisstjórnina.

Á sama tíma urðu miklar samfélagslegar breytingar í Quebec sem voru kallaðar Þögla byltingin. Fylkisstjórnin tók stjórn heilbrigðis- og menntamála í eigin hendur, en hún hafði áður verið í höndum kaþólsku kirkjunnar. Frjálslynd fylkisstjórn reyndi að færa þróunina í átt til stefnu alríkisstjórnarinnar. Átakalínur í stjórnmálum fylkisins mynduðust þá milli sambandssinna og aðskilnaðarsinna. Áriði 1970 hófu róttækir aðskilnaðarsinnar í Front de libération du Québec röð sprengjuárása og mannrána sem voru kölluð Októberkreppan. Árið 1976 tók fullveldisflokkurinn Parti Quebecois við völdum í fylkinu. Flokkurinn stóð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskilnað Quebec en yfir 60% íbúa reyndust andsnúnir því. Tilraunir til að sætta öndverðar skoðanir með Meech Lake-sáttmálanum mistókust. Önnur þjóðaratkvæðagreiðsla var haldin 1995 þar sem tillagan var aftur felld en með mun minni mun: aðeins 50,6% voru á móti. Árið 1997 úrskurðaði Hæstiréttur Kanada að einhliða úrsögn úr sambandsríkinu væri andstæð stjórnarskrá landsins.

Auk deilna um sjálfstæði Quebec gekk Kanada í gegnum ýmis áföll á 9. og 10. áratug 20. aldar. Þar á meðal voru sprengingin í Air India flugi 182 sem er stærsta fjöldamorðið í sögu landsins; blóðbaðið í École Polytechnique 1989 þar sem byssumaður réðist á kvenkyns nemendur skólans; og Oka-kreppan, átök við frumbyggja árið 1990. Kanada tók þátt í Persaflóastríðinu 1990 og nokkrum friðargæsluverkefnum, þar á meðal UNPROFOR-verkefni NATO í Júgóslavíu.

Kanada sendi herlið til Afganistan 2001 en hafnaði þátttöku í innrás Bandaríkjanna í Írak 2003. Árið 2011 tók Kanada þátt í inngripum NATO inn í Borgarastyrjöldina í Líbíu, og tók líka þátt í bardögum við Íslamska ríkið í Írak. Kórónaveirufaraldurinn 2019-2021 hófst í Kanada 27. janúar 2020 og olli víðtækri samfélags- og efnahagskreppu. Í febrúar 2022 nýtti þingið sér neyðarlög sem voru samþykkt 1988 gegn mótmælum vörubílstjóra og fleiri gegn COVID-19-takmörkunum í landinu. Atvinnulíf í miðborg Ottawa var lamað. Nær 200 voru handteknir, sektaðir og vörubílar gerðir upptækir.

Landfræði

Kanada: Heiti, Saga, Landfræði 
Hin mikilfenglegu kanadísku Klettafjöll

Kanada nær yfir norðurhluta Norður-Ameríku. Það á landamæri að Bandaríkjunum í suðri og í norðvestri (Alaska). Landið nær úthafa á milli, frá Atlantshafi og Davissundi í austri til Kyrrahafs í vestri og af því er kjörorð landsins dregið. Í norðri eru svo Beauforthaf og Norður-Íshaf. Síðan 1925 hefur Kanada átt tilkall til hluta norðurheimskautssvæðisins á milli 60. og 141. lengdargráðu vestur, það er að segja tilkall Kanada til þess landsvæðis nær alveg upp að Norðurpól. Nyrsta byggð Kanada (og heimsins) er kanadíska herstöðin Alert á norðurenda Ellesmereeyjar — breiddargráða 82,5°N — aðeins 834 kílómetra frá Norðurpólnum.

Kanada er næststærsta land í heiminum að flatarmáli, á eftir Rússlandi, og nær yfir um 41% heimsálfunnar Norður-Ameríku. Hins vegar er stór hluti Kanada á norðurheimskautssvæðinu og það er því aðeins fjórða stærsta land heimsins, á eftir Rússlandi, Kína og Bandaríkjum Norður-Ameríku, ef horft er til byggilegs lands. Þéttleiki byggðar er aðeins um 3,2 manns á ferkílómetra, sem er mjög lítið samanborið við önnur lönd. Til samanburðar má þó geta að þéttleiki byggðar á Íslandi er mjög svipaður. Áttatíu prósent íbúa Kanada búa innan við 200 kílómetra frá landamærum Bandaríkjanna, þar sem loftslag er temprað og land vel fallið til ræktunar.

Þéttbýlasta svæði landsins er lægðin sem afmarkast af Vötnunum miklu og Saint Lawrence fljóti að austan. Fyrir norðan þetta svæði er hinn víðfeðmi kanadíski skjöldur, en hann er lag úr mjög fornu bergi, sem er jökulsorfið eftir síðustu ísöld. Ofan á þessu berglagi liggur nú þunnt, steinefnaríkt jarðvegslag, sundurskorið af vötnum og ám, en yfir 60% af stöðuvötnum heims eru í Kanada. Kanadíski skjöldurinn umlykur Hudsonflóa.

Kanadíski skjöldurinn nær að strönd Atlantshafs við Labrador, fastalandshluta fylkisins Nýfundnalands og Labrador. Eyjan Nýfundnaland, austasti hluti Norður-Ameríku, er við mynni Saint Lawrenceflóa, sem er heimsins stærsti árós, og það landsvæði þar sem Evrópubúar námu fyrst land. Atlantshafsfylkin skaga til austurs sunnan við suðurströnd Saint Lawrenceflóa, milli flóans í norðri og Atlantshafs í suðri. Fundyflóa, sem gengur inn úr Atlantshafi til norðausturs skilur að fylkin Nýju-Brúnsvík og Nýja-Skotland. Þar eru mestu sjávarfallabreytingar (munur flóðs og fjöru) í heimi. Minnsta fylki Kanada er Eyja Játvarðar prins.

Vestur við Ontario eru hinar breiðu og flötu kanadísku sléttur, sem ná yfir fylkin Manitoba, Saskatchewan og Alberta,og allt að Klettafjöllum, en þau liggja á milli fylkjanna Alberta og Bresku Kólumbíu.

Gróðurfar í norðurhluta Kanada breytist eftir því sem norðar dregur úr barrskógum yfir í freðmýri nyrst. Norðan við fastaland Kanada er geysilegur eyjaklasi, þar sem er að finna nokkrar af stærstu eyjum jarðar: Baffinsland, Ellesmere-eyja, Viktoríu-eyja o.fl..

Júkonfljót og Mackenziefljót eru stórfljót í norðurhluta landsins.

Kanada er þekkt fyrir kalt loftslag. Vetur getur verið óvæginn víða í landinu, með hættu á hríðarbyljum og hitastigi niður undir -50 °C í nyrstu hlutum þess. Strandfylkið Breska Kólumbía er undantekning frá þessu og nýtur mun mildari vetra en aðrar hlutar landsins, vegna nálægðar við hlýrri sjó.

Á þéttbýlustu svæðunum er sumarhitinn allt frá því að teljast mildur upp í að vera frekar hár. Sumarhiti í Montreal getur náð vel yfir 30 °C en í Iqaluit í Nunavut allt að 15 °C. Í Vancouver er hitastig yfirleitt á milli 0 til 25 °C allt árið um kring, en á sléttunum miklu fer það allt niður í -40 °C á veturna og upp í 35 °C á sumrin.

Nokkrir tugir þjóðgarða eru í Kanada og var sá fyrsti stofnaður árið 1885.

Kanada: Heiti, Saga, Landfræði 
Peggy & Cove, Halifax

Stjórnmál

Kanada býr við „fullt lýðræði“ þar sem er rík hefð fyrir frjálslyndi, jafnrétti og hófsemd í stefnumálum stjórnmálaflokka. Áhersla á félagslegt réttlæti hefur verið einkenni á kanadískum stjórnmálum. Einkunnarorð ríkisstjórnar Kanada eru „friður, regla og góð stjórn“.

Kanadísk stjórnmál einkennast af tveimur breiðum miðjuflokkum, Frjálslynda flokknum og Íhaldsflokknum sem báðir stunda málamiðlunarstjórnmál. Frjálslyndi flokkurinn er hinn hefðbundni valdaflokkur og skilgreinir sig á miðjunni, meðan Íhaldsflokkurinn skilgreinir sig til hægri. Nýi lýðræðisflokkurinn er sósíaldemókratískur flokkur sem skilgreinir sig til vinstri. Flokkar yst á hægri og vinstri vængnum hafa aldrei verið áberandi í kanadískum stjórnmálum. Í alríkiskosningunum 2019 voru fimm flokkar kosnir á þing; Frjálslyndi flokkurinn sem myndaði minnihlutastjórn, Íhaldsflokkurinn sem er hinn opinberi stjórnarandstöðuflokkur, Nýi lýðræðisflokkurinn, Bloc Québécois og Græningjar.

Í Kanada er þingræði og þingbundin konungsstjórn þar sem konungur Kanada er undirstaða framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Karl 3. Bretakonungur er núverandi einvaldur Kanada, auk 14 annarra ríkja í samveldinu og í hverju fylki Kanada. Samt er um tvær aðskildar stofnanir að ræða: bresku og kanadísku krúnurnar. Fulltrúi drottningar er yfirlandstjóri Kanada sem hún skipar samkvæmt ráði forsætisráðherra Kanada til að sinna skyldum hennar í landinu.

Þótt konungsvaldið sé þannig innbyggt í stjórnkerfi Kanada er hlutverk einvaldsins í reynd táknrænt. Ríkisstjórn Kanada fer með framkvæmdavaldið og ber ábyrgð gagnvart fulltrúaþinginu. Forsætisráðherra Kanada velur ráðherra í ríkisstjórnina og er stjórnarleiðtogi. Einvaldurinn eða fulltrúi hans geta ef upp kemur stjórnarkreppa farið með vald sitt án þess að ráðgast við ríkisstjórnina. Landstjórinn skipar forsætisráðherra sem oftast er leiðtogi þess stjórnmálaflokks sem hefur traust meirihluta þingfulltrúa. Skrifstofa forsætisráðherra er þannig valdamesta stofnun ríkisins. Þaðan kemur megnið af lagafrumvörpum þingsins og þaðan koma tilnefningar til yfirlandstjóra, varalandstjóra, ráðherra, dómara og yfirmanna krúnustofnana Kanada sem drottningin skipar. Leiðtogi þess flokks sem hlýtur næstflest sæti á þingi í kosningum er venjulega kallaður leiðtogi opinberrar stjórnarandstöðu sem á að veita stjórninni aðhald.

Allir 338 þingfulltrúar á fulltrúaþingi Kanada eru kjörnir með einföldum meirihluta í einmenningskjördæmum. Landstjórinn boðar til kosninga, annað hvort samkvæmt ráði forsætisráðherra eða ef vantraust á stjórnina er samþykkt á þinginu. Stjórnarskrárlögin 1982 gera ráð fyrir að ekki líði meira en fimm ár milli kosninga, en Kosningalög Kanada kveða á um fjögurra ára kjörtímabil með föstum kjördegi í október. Í öldungadeild Kanada sitja 105 fulltrúar sem skipaðir eru á grundvelli landfræðilegrar skiptingar og sitja til 75 ára aldurs.

Þar sem Kanada er sambandríki skiptist stjórnvaldsábyrgðin milli alríkisstjórnarinnar og fylkjanna tíu. Fylkisþing Kanada sitja í einni deild og vinna á sama hátt og fulltrúadeildin. Sjálfstjórnarsvæðin hafa líka hvert sitt þing, en þau eru ekki fullvalda og hafa færri hlutverk en fylkin. Svæðisþingin eru líka ólíkt uppbyggð.

Kanadabanki er seðlabanki landsins. Hagstofa Kanada gefur út gögn sem fjármálaráðherra Kanada og iðnaðarráðherra Kanada nýta sér við áætlanagerð og mótun efnahagsstefnu. Kanadabanki hefur einkarétt á seðlaútgáfu kanadadals, en Konunglega kanadíska myntsláttan sér um útgáfu myntarinnar.

Stjórnsýslueiningar

Kanada: Heiti, Saga, Landfræði 
Kanadísk fylki og sjálfstjórnarsvæði.

Kanada er sambandsríki tíu fylkja og þriggja sjálfstjórnarsvæða. Þessi svæði eru oft flokkuð í fjögur héruð: Vestur-Kanada, Mið-Kanada, Atlantshafsfylkin og Norður-Kanada (Austur-Kanada er notað yfir bæði Mið-Kanada og Atlantshafsfylkin). Fylkin hafa meiri sjálfstjórn en sjálfstjórnarsvæðin og bera ábyrgð á félagslegri þjónustu eins og heilsugæslu, menntun og félagsaðstoð. Samanlagt eru tekjur fylkjanna meiri en tekjur alríkisstjórnarinnar, sem er einstakt meðal sambandsríkja í heiminum. Alríkisstjórnin getur notað sínar tekjur til að framkvæma stefnu sína í fylkjunum, eins og til dæmis kanadísku heilsulögin frá 1984. Fylkin geta sagt sig frá stefnunni, en gera það sjaldnast. Alríkisstjórnin notar jöfnunargreiðslur til að jafna aðstöðu fylkjanna.

Helsti munurinn á fylki og sjálfstjórnarsvæði er að völd fylkjanna koma frá Stjórnarskrá Kanada, meðan stjórnir sjálfstjórnarsvæða fá sín völd frá kanadíska þinginu. Samkvæmt stjórnarskránni deilir alríkisstjórnin völdum með fylkjunum. Þar sem skipting valds milli alríkisstjórnar og fylkja er skilgreind í stjórnarskránni þurfa allar breytingar á henni að fara gegnum stjórnarskrárbreytingarferli, en þingið getur einhliða breytt völdum sjálfstjórnarsvæðanna.


Skjaldar- merki Fylki Skamm- stöfun Höfuðstaður Stærsta borg Aðild að sambands- ríkinu Íbúar
2020.
Stærð (km2) Fylkis- tungumál
Þurrlendi Vatn Alls
Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Ontario ON Toronto 1. júlí 1867 14.734.014 917.741 158.654 1.076.395 Enska
Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Quebec QC Quebec-borg Montreal 1. júlí 1867 8.574.571 1.356.128 185.928 1.542.056 Franska
Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Nova Scotia NS Halifax 1. júlí 1867 979.351 53.338 1.946 55.284 Enska
Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Nýja-Brúnsvík NB Fredericton Moncton 1. júlí 1867 781.476 71.450 1.458 72.908 Enska
Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Manitóba MB Winnipeg 15. júlí 1870 1.379.263 553.556 94.241 647.797 Enska
Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Breska Kólumbía BC Victoria Vancouver 20. júlí 1871 5.147.712 925.186 19.549 944.735 Enska
Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Prince Edward Island PE Charlottetown 1. júlí 1873 159.625 5.660 0 5.660 Enska
Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Saskatchewan SK Regina Saskatoon 1. september 1905 1.178.681 591.670 59.366 651.036 Enska
Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Alberta AB Edmonton Calgary 1. september 1905 4.421.876 642.317 19.531 661.848 Enska
Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Nýfundnaland og Labrador NL St. John's 31. mars 1949 522.103 373.872 31.340 405.212 Enska
Alls &&&&&&&&37878672.&&&&&037.878.672 &&&&&&&&&5490918.&&&&&05.490.918 &&&&&&&&&&572013.&&&&&0572.013 &&&&&&&&&6062931.&&&&&06.062.931
Sjálfstjórnarsvæði Kanada
Skjaldarmerki Svæði Skamm- stöfun Höfuðstaður og
stærsta borg
Dagsetning aðildar
að sambands- ríkinu
Íbúar
(2020)
Stærð (km2) Tungumál
Þurrlendi Vatn Alls
Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Norðvesturhéruðin NT Yellowknife 15. júlí 1870 45.161 1.183.085 163.021 1.346.106 Dene suline, cree, enska, franska, gwich'in, inuinnaqtun, inuktitut, inuvialuktun, slavey, tłįchǫ
Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Júkon YT Whitehorse 13. júní 1898 42.052 474.391 8.052 482.443 Enska, franska
Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Kanada: Heiti, Saga, Landfræði  Núnavút NU Iqaluit 1. apríl 1999 39.353 1.936.113 157.077 2.093.190 Inuinnaqtun, inuktitut, enska, franska
Alls &&&&&&&&&&126566.&&&&&0126.566 &&&&&&&&&3593589.&&&&&03.593.589 &&&&&&&&&&328150.&&&&&0328.150 &&&&&&&&&3921739.&&&&&03.921.739

Efnahagslíf

Kanada: Heiti, Saga, Landfræði 
Fjármálahverfið í Toronto er önnur stærsta fjármálamiðstöð í Norður-Ameríku og í sjöunda sæti á heimsvísu.

Kanada var 10. stærsta hagkerfi heims árið 2018, með um það bil 1,73 billjónir bandaríkjadala verga landsframleiðslu. Kanada er eitt af minnst spilltu löndum heims, og er ein af helstu verslunarþjóðum heims, með mjög alþjóðavætt hagkerfi. Hagkerfi Kanada er blandað hagkerfi sem situr hærra á lista yfir lönd eftir vísitölu efnahagsfrelsis en bæði Bandaríkin og öll Evrópuríkin, og tekjujöfnuður er tiltölulega mikill. Meðalráðstöfunartekjur í Kanada eru töluvert hærri en meðaltal OECD-ríkja. Kauphöllin í Toronto er níunda stærsta kauphöll heims, með yfir 1.500 fyrirtæki á skrá og samanlagða fjárfestingu upp á meira en 2 billjón bandaríkjadali.

Árið 2018 var heildarvelta kanadíska hagkerfisins með vörur og þjónustu 1,5 billjón kanadadalir. Útflutningur var yfir 585 billjón kanadadalir, og innflutningur yfir 607 billjón dalir, þar af 391 frá Bandaríkjunum. Árið 2018 var viðskiptahalli Kanada um 25 billjónir.

Vöxtur í námavinnslu, iðnframleiðslu og þjónustu frá upphafi 20. aldar hefur breytt hagkerfi Kanada úr dreifbýlu landbúnaðarhagkerfi, í nútímalegt iðnvætt hagkerfi. Líkt og í öðrum þróuðum ríkjum er þjónustugeirinn ríkjandi, með 2/3 hluta vinnuaflsins, en frumframleiðslugeirinn er líka mjög mikilvægur, einkum skógarhögg og olíuvinnsla. Kanada er tæknilega þróað og iðnvætt ríki, sem er sjálfbjarga í orkumálum, vegna síns mikla náttúrulega forða af jarðefnaeldsneyti, ásamt kjarnorku- og vatnsorkuframleiðslu. Nýting náttúruauðlinda og viðskipti, þá sérstaklega við Bandaríkin, hafa lengi skipt höfuðmáli fyrir efnahag landsins. Þrátt fyrir að fjölbreytni hafi almennt séð aukist í kanadísku efnahagslífi, eru enn mörg héruð, sem reiða sig á vinnslu og sölu afurða úr náttúruauðlindum.

Samþætting hagkerfis Kanada við hagkerfi Bandaríkjanna hefur aukist mikið frá lokum Síðari heimsstyrjaldar. Árið 1965 gerðu löndin með sér fríverslunarsamning um bílaparta, Automotive Products Trade Agreement. Á 8. áratugnum setti ríkisstjórn Pierre Trudeau upp National Energy Program (NEP) og Foreign Investment Review Agency (FIRA) til að bregðast við áhyggjum yfir sjálfbærni í orkumálum og erlendri fjárfestingu í iðnaði. Á 9. áratugnum lagði íhaldsstjórn Brian Mulroney NEP niður og breytti nafni FIRA í Investment Canada til að hvetja til erlendrar fjárfestingar. Fríverslunarsamningur Kanada og Bandaríkjanna frá 1988 afnam tolla milli landanna og 1994 var samningurinn látinn ná einnig yfir Mexíkó þegar Fríverslunarsamningur Norður-Ameríku var gerður. Samvinnubankakerfið er sterkt í Kanada sem er með hæsta hlutfall meðlima í lánafélögum í heimi.

Kanada flytur út meira af orku en landið flytur inn. Atlantshafsmegin eru gaslindir undan strönd landsins og í Alberta eru stórar olíu- og gaslindir. Athabasca-olíusandarnir eiga líka þátt í því að olíubirgðir Kanada eru metnar vera 13% af heildarolíuforða heimsins, í þriðja sæti á eftir Venesúela og Sádi-Arabíu. Auk þess er Kanada einn af stærstu framleiðendum landbúnaðarvara í heiminum; Slétturnar í Kanada eru með stærstu ræktarlöndum korns og repju í heiminum. Samkvæmt Auðlindastofnun Kanada er landið leiðandi í útflutningi á sinki, úrani, gulli, nikkel, platínumálmum, áli, stáli, járngrýti, kolum, blýi, kopar, mólýbdeni, kóbalti og kadmíni. Margir bæir í norðurhluta Kanada reiða sig á námavinnslu eða timburvinnslu fremur en landbúnað. Miðstöð iðnaðarframleiðslu í Kanada er í kringum Ontario og Quebec þar sem bílaiðnaður og flugvélaiðnaður eru sérstaklega mikilvægar greinar.

Íbúar

Í manntali 2023 voru Kanadabúar 40 milljónir. Milli 1990 og 2008 fjölgaði Kanadabúum um 5,6 milljónir, eða 20,4%, og helsta ástæða fjölgunarinnar var aðflutningur.

Aðflutningur fólks til Kanada er með því mesta sem gerist í heiminum, miðað við höfðatölu, aðallega vegna efnahagsstefnu landsins og vegna sameiningar fjölskyldna. Bæði almenningur í Kanada og helstu stjórnmálaflokkar landsins styðja þessa aðflutninga. Árið 2019 fluttust 341.180 innflytjendur til Kanada, aðallega frá Asíu. Helstu upprunalönd innflytjenda til Kanada eru Indland, Filippseyjar og Kína. Nýir innflytjendur hafa aðallega sest að á helstu þéttbýlissvæðum landsins, eins og Torontó, Montreal og Vancouver. Kanada tekur líka við nokkrum fjölda flóttafólks, eða um tíunda hluta allra flóttamanna sem fá hæli í heiminum á hverju ári. Kanada tók við yfir 28.000 flóttamönnum árið 2018.

Þéttleiki byggðar er með því minnsta sem gerist í heiminum, eða aðeins 3,7 á ferkílómetra. Kanada nær frá 83. til 41. breiddargráðu norður, en um 95% íbúa landsins búa sunnan við 55. breiddargráðu. Um 4/5 íbúa búa innan við 150 km frá landamærunum við Bandaríkin. Þéttbýlasti hluti landsins, með um helming íbúa, er Quebec-Windsor-ræman í suðurhluta Quebec og Ontario við Vötnin miklu og Lawrence-fljót. Önnur 30% búa í Lower Mainland í Bresku Kólumbíu og á Calgary-Edmonton-ræmunni í Alberta.

Meirihluti Kanadabúa, eða 67%, búa á heimili með fjölskyldu, 28,2% búa einir og 4,1% búa með óskyldum. 6,3% búa með eldri kynslóð og 34,7% ungs fólks á aldrinum 20 til 34 ára býr hjá foreldrum. 69% búa í eigin húsnæði, og 58% af þeim er með húsnæðislán.

Uppruni

Samkvæmt manntalinu frá 2016 telur um 32% íbúa sig vera kanadíska að uppruna. Þar á eftir kemur enskur uppruni (18,2%), skoskur (13,9%), franskur (13,6%), írskur (13,4%), þýskur (9,6%), kínverskur (5,1%), ítalskur (4,6%), frá frumþjóðunum (4,4%), indverskur (4%), og úkraínskur (3,9%). Í Kanada búa um 600 opinberlega viðurkenndar frumþjóðir, sem telja um 1,5 milljónir. Um 22,3% íbúa tilheyra svokölluðum sýnilegum minnihlutahópi sem tekur ekki til frumbyggja en nær yfir Kanadabúa af suðurasískum eða kínverskum uppruna, og þeldökkra Kanadabúa. Milli 2011 og 2018 fjölgaði í þessum hópi um 18,1%. Árið 1960 tilheyrðu innan við 2% íbúa Kanada sýnilegum minnihlutahópum.

Tungumál

Mikill fjöldi tungumála er talaður af Kanadabúum en enska og franska eru móðurmál annars vegar 56% og hins vegar 21% íbúa landsins. Í austurfylkjunum Quebec og Nýju Brúnsvík, austurhluta Ontario og í ákveðnum samfélögum Atlantshafsmegin og í vestri er mestmegnis töluð franska. Enska er töluð alls staðar annars staðar nema í ýmsum smærri samfélögum og meðal frumbyggja. Í manntali árið 2016 nefndu 7,3 milljónir Kanadabúa annað móðurmál en opinberu málin tvö. Meðal þeirra helstu eru mandarín, púnjabíska, spænska, tagalog, arabíska, þýska og ítalska. Kanada er formlega tvítyngt ríki og franska og enska eru jafngild gagnvart stjórnkerfi og dómstólum alríkisins. Opinber minnihlutamál hafa eigin skóla í öllum fylkjum og sjálfstjórnarsvæðum.

Með Lögum 101 árið 1977 var franska gerð að opinberu máli í Quebec. Yfir 75% frönskumælandi Kanadabúa búa í Quebec, en stórir hópar frönskumælandi íbúa eru líka búsettir í Nýju-Brúnsvík, Alberta og Manitóba. Stærsti hópur frönskumælandi íbúa utan Quebec er í Ontario. Þar hefur franskan sérstaka stöðu en ekki sem opinbert mál. Nýja-Brúnsvík er eina fylkið, fyrir utan Quebec, þar sem franska hefur opinbera stöðu en þar eru frönskumælandi um þriðjungur íbúa. Frönskumælandi íbúa sem rekja uppruna sinn til frönsku nýlendunnar Akadíu er líka að finna í Nova Scotia, Cape Breton-eyju og Eyju Játvarðs prins.

Í öðrum fylkjum hefur franska ekki opinbera stöðu en er víða notuð sem kennslumál í skólum, við dómstóla og aðrar opinberar stofnanir, samhliða ensku. Í Manitóba, Ontario og Quebec er franska leyfð í umræðum á þingi og lög eru gefin út á báðum málum. Meðal frumbyggja Kanada eru töluð mál sem skiptast í 11 málaættir og telja yfir 65 tungumál og mállýskur. Mörg frumbyggjamál hafa opinbera stöðu í Norðvesturhéruðunum. Inuktitut er móðurmál meirihluta íbúa í Nunavut og er þar eitt af þremur opinberum málum.

Mörg táknmál eru töluð í Kanada. Amerískt táknmál er víða talað og notað sem kennslumál í grunn- og framhaldsskólum. Quebec-táknmál er aðallega talað í Quebec.

Menning

Kanada: Heiti, Saga, Landfræði 
Minnismerki um fjölmenningu eftir Francesco Pirelli í Torontó.

Menning Kanada er undir áhrifum frá fjölbreyttum uppruna íbúa, og stefnumál sem snúast um að viðhalda „réttlátu þjóðfélagi“ eru varin sérstaklega í stjórnarskrá landsins. Kanada hefur lagt áherslu á jafnrétti og þátttöku allra íbúa landsins. Fjölmenning er opinber stefna ríkisins og er oft talin með helstu afrekum Kanadabúa og lykileinkenni á sjálfsmynd þeirra. Í Quebec er sterk frönsk kanadísk menning sem hefur sérstöðu gagnvart ensku kanadísku meginstraumsmenningunni. Menning Kanada er að minnsta kosti fræðilega séð mósaík ólíkra menningarstrauma staðbundinna upprunahópa.

Sú nálgun Kanada að leggja áherslu á fjölmenningu, sem byggist á aðflutningi útvalinna hópa, aðlögun og stöðvun öfgasinnaðrar þjóðernisstefnu, nýtur mikils almenns stuðnings. Opinber stefnumál eins og niðurgreitt heilbrigðiskerfi, hærri skattlagning til að dreifa auðlegðinni betur, niðurfelling dauðarefsinga, átak til að útrýma fátækt, ströng vopnalög, frjálslynd stefna í kvenfrelsismálum og réttindum hinsegin fólks, lögleiðing dánaraðstoðar og kannabiss, eru afleiðing þeirra pólitísku og menningarlegu gilda sem einkenna Kanada. Kanadabúar styðja líka almennt utanríkisstefnu landsins, hlutverk þess í friðargæslu, þjóðgarðakerfið og „Réttindaskrá Kanada“.

Sögulega hefur Kanada verið undir miklum áhrifum frá breskri og franskri menningu, auk frumbyggjamenningar. Frumbyggjar Kanada hafa enn mikil áhrif á sjálfsmynd íbúa landsins með tungumálum sínum, myndlist og tónlist. Frá 20. öld hafa bæst við Kanadabúar af afrískum, karabískum og asískum uppruna. Kanadískur húmor er hluti af sjálfsmynd íbúa og birtist í kanadískri alþýðumenningu, bókmenntum, tónlist, myndlist og fjölmiðlum. Helstu einkenni hans eru háðsádeila og skopstælingar.

Tilvísanir

Tenglar

Tags:

Kanada HeitiKanada SagaKanada LandfræðiKanada StjórnmálKanada EfnahagslífKanada ÍbúarKanada MenningKanada TilvísanirKanada TenglarKanadaAtlantshafBandaríkinKyrrahafMontrealNorður-AmeríkaNorður-ÍshafOttawaTorontoVancouver

🔥 Trending searches on Wiki Íslenska:

GrundarfjörðurBeinagrind mannsinsListi yfir úrslit MORFÍSSamsíðungurEnskaSumarólympíuleikarnir 1968Listi yfir færeyskar kvikmyndirEsjaHinrik 8.EneasarkviðaUmmálÞórshöfn (Langanesi)EndaþarmurNafnorðForsetakosningar á ÍslandiAron Einar GunnarssonHættir sagna í íslenskuArnar Þór JónssonGuðni Th. JóhannessonTaekwondoLærdómsöldÞórdís Kolbrún Reykfjörð GylfadóttirÓmar RagnarssonYrsa SigurðardóttirSýslumaðurForsetakosningar á Íslandi 1980Kristján EldjárnRaunsæiðSeglskútaÞórsmörkHrossagaukurAnna1. deild karla í knattspyrnu 1967ÞingvellirJóhannes Haukur JóhannessonSeljalandsfossÍtalíaÞrælastríðiðJakob Frímann MagnússonEfnafræðiPedro 1. BrasilíukeisariFinnlandMarktækniHoluhraunHatrið mun sigraKennifall (málfræði)ÚtlegðRóbert WessmanSveitarstjórnarkosningar á Íslandi 2022Ópersónuleg sögnLjónTvíburarnir (stjörnumerki)Ayn RandHandknattleikssamband ÍslandsSíderLögurinn (Svíþjóð)LatibærÖndunarkerfiðÍslenski hesturinnÍslensk sveitarfélög eftir mannfjöldaJóhann SvarfdælingurLoftslagsbeltiSamtengingFjalla-EyvindurFanta-kakaSöngkeppni framhaldsskólannaMollCarles PuigdemontAronGyrðir ElíassonNafnháttarmerkiEldfellKöngulóarkrabbiJörundur hundadagakonungur2024Forsetakosningar á Íslandi 1996Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnuAnna Bretadrottning🡆 More